Ef marka má frétt RMC Sport hefur Neymar sætt sig við það að hann muni fara frá Paris Saint-Germain í sumar.
Neymar hefur verið orðaður frá PSG undanfarið. Nasser Al-Khelaifi, forseti félagsins, sagði á dögunum að hann vildi einungis halda leikmönnum hjá félaginu sem væru 100 prósent með í verkefninu sem er framundan í París. Nú bendir margt til þess að Neymar tilheyri ekki þeim hópi.
Þessi brasilíska stjarna hefur verið orðaður við nokkur félög, til að mynda Chelsea og Manchester United á Englandi.
Það er þó ljóst að það félag sem fengi hann til sín þyrfti að borga honum ansi hressilegar upphæðir í laun í viku hverri.
Neymar á þrjú ár eftir af samningi sínum í París.
Hann kom til PSG frá Barcelona fyrir fimm árum síðan fyrir um 200 milljónir punda. Hann er því dýrasti leikmaður sögunnar.