Það var nóg að gera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt miðað við dagbók lögreglu. Í henni má finna töluvert af ölvunarbrotum sem framin voru víðsvegar um höfuðborgarsvæðið. Töluvert var um að bifreiðir sem voru stöðvaðar vegna gruns um ölvun hjá ökumönnum.
Þá voru alls þrjú rafskútuslys tilkynnt til lögreglu. Það fyrsta sem var tilkynnt varðaði mann sem datt af rafmagnshlaupahjóli í Kópavoginum. Maðurinn brotnaði illa á hægri handlegg en hann var fluttur með sjúkrabíl til aðhlynningar á bráðadeild Landspítalans
Um klukkan 21 var síðan tilkynnt um konu sem datt af rafmangshlaupahjóli í miðbæ Reykjavíkur en talið er að hún sé ökklabrotin. Konan var einnig flutt með sjúkrabíl til aðhlynningar á bráðadeild.
Á miðnætti var svo tilkynnt um þriðja rafskútuslysið en það átti sér stað í 104 Reykjavík. Lögreglan kom að manni sem datt af rafmagnshlaupahjóli, maðurinn var með meðvitund en mjög ölvaður – hann gat til að mynda hvorki gefið upp nafn sitt né kennitölu sökum ölvunar. Maðurinn var fluttur með sjúkrabíl á bráðadeild til aðhlynningar.
Klukkan 23:32 var lögreglu tilkynnt um mann sem var að handleika hníf innan um hóp ungmenna í Árbænum. Áður hafði lögreglu verið tilkynnt að maðurinn var að koma út úr skóla þar sem innbrotskerfi var í gangi. Lögreglan handók manninn sem reyndist vera í annarlegu ástandi. Maðurinn er grunaður um húsbrot, brot á vopnalögum og vörslu fíkniefna. Hann var vistaður í fangageymslu lögreglu fyrir rannsókn málsins.