Robert Habeck, efnahagsmálaráðherra Þýskalands, segir að staðan sé nú jafn alvarleg og sú staða sem var uppi fyrir fall Lehman Brothers. Ástæðan er staða orkumála í Evrópu. Þjóðverjar eru nú komnir á næst hæsta stig hvað varðar stöðu orkumála. Næsta stig, efsta stig, er neyðarstig þar sem gripið verður til neyðarréttar.
Ástæðan er að rússneska ríkisfyrirtækið Gazprom hefur dregið úr flæði gass í gegnum Nord Stream leiðslur sína og ber við „hefðbundnu viðhaldi“ og skorti á varahlutum frá Vesturlöndum, þar á meðal frá hinu þýska Siemens fyrirtæki.
Habeck ræddi við fréttamenn í gær og sagði að Þjóðverjar gangi nú grýttan veg. Þrátt fyrir að fólk verði kannski ekki mjög vart við það þá sé landið í miðri gaskrísu.
Vegna minna flæðis gass frá Rússlandi er vandséð að Þjóðverjar geti fyllt á gasbirgðir sínar fyrir næsta vetur en samkvæmt samningi ESB-ríkjanna á að vera búið að fylla á gasforðageymslur aðildarríkjanna að 80% markinu, að minnsta kosti, þann 1. nóvember.
Til að bregðast við gasskorti eru Þjóðverjar að taka fleiri kolaorkuver í notkun og orkufyrirtækjum verður hugsanlega heimilað að velta auknum kostnaði yfir á neytendur, bæði heimili og fyrirtæki.
Habeck sagði að reikna megi með að Pútín sé reiðubúinn til að draga enn frekar úr gasflæði til ESB. „Við sjáum nú þegar sífellt vaxandi halla á gasforðanum okkar. Ef þessi halli verður svo mikill að markaðurinn ræður ekki lengur við að anna eftirspurninni getur það endað með hruni sem mun hafa sömu áhrif á orkumarkaðinn og fall Lehman Brothers hafði á fjármálamarkaðinn,“ sagði hann í gær.