Þessar lífverur eru örverur sem heita demodex folliculorum og demodex brevis. Þær er að finna í þúsundatali á líkama okkar því þar eru heimkynni þeirra.
Ladbible segir að vísindamenn hafi lengi vitað af þessum örverum, sem eru áttfættar, og partýstandi þeirra á líkama okkar þegar við sofum. En nú hefur þeim í fyrsta sinn tekist að kortleggja erfðaefni þeirra.
Þær lifa í svitaholunum okkar og fara á flakk um líkamann á nóttunni. Vísindamenn hafa nú komist að því að þær virðast stunda kynlíf af miklum krafti þegar þær eru vakandi. Að minnsta kosti bendir erfðaefni þeirra til þess að innræktun eigi sér stað á meðal þeirra.
Vísindamennirnir fundu einnig vísbendingar um að þessar örverur séu að þróast í þá átt að þær munu lifa inni í okkur í framtíðinni frekar en bara á húðinni. Huggulegt, eða hvað?
Rannsóknin leiddi í ljós að þessar örverur eru með „óvenjulega líkamsstarfsemi“. Meðal annars missa þær erfðaefni og frumur á líkama okkar því þær lifa með eins lítið af prótíni í líkama sínum og þær komast af með. Þær eru einnig með endaþarm, það var ekki vitað áður, og það þýðir einfaldlega að þær kúka á okkur. Næst þegar þú færð útbrot eða finnur fyrir óþægindum í húðinni þá veistu hver ástæðan getur hugsanlega verið!
A new study on skin mites which live in our pores revealed the genetic reasons for their behaviour including mating on our faces at night. The research on Demodex folliculorum mites shows they've shed genes as they move towards becoming at one with humans.https://t.co/QmAdGA0VxE pic.twitter.com/8jf1vXOAk3
— Uni of Reading (@UniofReading) June 22, 2022
En það þarf ekki að örvænta og rjúka í sturtu og skrúbba allan líkamann hátt og lágt til að reyna að losna við þessar örverur, sem eru um 0,3 mm á lengd, því þær gera gagn. Þær halda svitaholunum hreinum og það væru miklu fleiri húðormar á okkur ef þessar örverur væru ekki á ferð um líkama okkar. Þess utan sjáum við þær ekki, heyrum ekki í þeim og vitum bara alls ekki af þeim.
Niðurstöður rannsóknarinnar hafa verið birtar í Oxford Academic.