Fyrirtækið Kambar byggingarvörur ehf. hefur svarið af sér öll tengsl við Gluggasmiðjuna sem var í fréttum DV í gær vegna meintra fjársvika.
Gluggasmiðjan er sökuð um að taka við pöntunum í gríð og erg en framleiða aldrei vörurnar sem eru pantaðar. Við pöntun þarf að greiða stóran hluta kaupverðsins og sitja nú viðskiptavinir eftir tómhentir, fá hvorki vöruna sem var pöntuð né hátt staðgreiðslugjaldið endurgreitt.
Í tilkynningu sinni benda Kambar á það lykilatriði að engin tengsl eru á milli Gluggamiðjunnar Selfossi og Gluggasmiðjunnar í Hafnarfirði:
„Að gefnu tilefni þá vilum við hjá Kambar byggingavörur ehf. koma á framfæri að fyrirtækið Gluggasmiðjan í Hafnarfirði sem hefur verið í fréttum er ekki tengd fyrirtækinu Kambar. Gluggasmiðjunni sem fyrirtæki var skipt upp fyrir nokkrum árum í tvö fyrirtæki. Sölu og innflutningsfyrirtæki sem starfar í Hafnarfirði og svo Gluggasmiðjan Selfossi sem var framleiðslufyrirtæki og framleiddi glugga og hurðir. Rekstur Gluggasmiðjunnar Selfoss var keyptur í lok árs 2021 og sameinað við Kamba en engin tengsl eru, eða hafa nokkurntíma verið, við eigendur eða rekstraraðila Gluggasmiðjunnar í Hafnarfirði.“