Dómur hefur fallið í máli manns sem ákærður var í 61 lið. Þar af voru 54 þeirra þjófnaðarbrot og 6 umferðarlagabrot. Flestu stal maðurinn úr Byko, Bónus og ÁTVR á tímabilinu frá 14. október 2021 til 10. maí 2022. Einnig var hann staðinn að því að keyra undir fölskum skráningarmerkjum fimm sinnum.
Meðal þess sem hann stal voru tugir flaska af viskí, rommi og koníaki að virði tugir þúsunda, 30 ryksuguvélmenni af ýmsum gerðum fyrir hundruð þúsunda, 8 KitchenAid hrærivélar, sverðsagarblaðasett, bitasett og stingsög, sturtusett og eldhústæki. Einnig voru þar á meðal margir tugir ljósapera og rafmagnshlaupahjól.
Það kemur líka fram í dómnum að hann hafi framið fjársvik og tekið á móti 25 þúsund krónum í skiptum fyrir að senda kaupandanum hljóðupptökubúnað í pósti sem hann gerði svo aldrei.
Ákærði var dæmdur í 10 mánaða, skilorðsbundið fangelsi og sviptur ökuréttindum í 9 mánuði frá dómsbirtingu. Einnig var hann dæmdur til að greiða 1.292.583 krónur í sakarkostnað, þar með talda 1.116.000 króna þóknun verjanda síns. Í skaðabætur skal hann greiða ÁTVR 95.591 krónur, Elko 344.980 krónur, Högum hf. 137.924 krónur og Lyfju hf. 26.667 krónur. Einnig mun hann greiða ÁTVR 200.000 krónur og Högum hf. 100.00 krónur í sakarkostnað.