Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lokaði götunni við Miðvang í norðurbæ Hafnarfjarðar í morgun og sagði gangandi vegfarendum að „fara í skjól.“ Þetta herma heimildir DV.
Fréttablaðið greinir frá því að lögreglan hafi verið með talsverðan viðbúnað við Miðvang í Hafnarfirði á níunda tímanum í morgun. Sjúkrabíll var á vettvangi og sérsveitin kölluð til.
Ekki hefur tekist að ná í lögregluna að svo stöddu. Samkvæmt óstaðfestum heimildum mbl.is var skotið úr byssu á vettvangi.
Samkvæmt frétt RÚV var skotið á bíl fyrir utan fjölbýlishús sem stendur á bak við verslun Nettó við Miðvang. Telur lögregla að skotmaðurinn sé inni í íbúð sinni í fjölbýlishúsinu og ræða samningamenn lögreglu við hann.