„Það sem mér fannst verst var að sjá að við erum ekki vel sett neins staðar þegar kemur að mönnun,“ sagði Steinunn um heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni þegar hún ræddi við Fréttablaðið.
Hún sagðist sjálf starfa á Landspítalanum og hafi gert alla sína starfsævi hér á landi. „Maður heldur alltaf að við séum á botninum varðandi mönnun og starfsumhverfi, en svo kemur í ljós að við erum öll á sama báti. Og það virðist vera sem enginn sé að koma til að bjarga okkur,“ sagði hún en hún lauk nýlega hringferð um landið þar sem hún heimsótti heilbrigðisstofnanir og ræddi við lækna.
„Á stærri stöðum eins og Selfossi, Akureyri og Egilsstöðum er mjög þungt hljóð í fólki, veruleg mannekla og vaxandi álag. Það er skortur og þá sérstaklega í heilsugæslunni. Til dæmis á Selfossi. Þetta er svæði þar sem íbúum hefur fjölgað gríðarlega, þar er risastór sumarhúsabyggð og mikill ferðamannafjöldi fer þarna í gegn daglega. En á sama tíma hefur heilsugæslulæknum ekki fjölgað og þá erum við að tala um mörg ár aftur í tímann,“ sagði hún og bætti við að aðstaðan sé ekki til fyrirmyndar: „Bráðamóttakan þar er gjörsamlega sprungin og í algjörlega óviðunandi húsnæði sem er í raun engan veginn í stakk búið til að taka við öllu þessu álagi.“
Hún sagði að læknar á landsbyggðinni kvarti einna helst undan aðstöðunni og manneklu. Þeir þurfi að standa margar vaktir og séu bundnir yfir þeim sólarhringum saman.
Hún benti á að í sumum minni byggðarlögum séu starfandi læknar að nálgast eftirlaunaaldurinn. Sumir þeirra séu nánast alltaf einir á vakt og hafi verið árum og jafnvel áratugum saman. Spurningin sé hvað verði gert þegar þessir læknar fara á eftirlaun? Ekki sé að sjá að nein áætlun sé til staðar um hvernig verði brugðist við.