Á fjórða tímanum var tilkynnt um nytjastuld á bifreið í Laugarneshverfi. Eigandinn taldi þjófinn hafa náð að teygja sig inn um glugga á heimilinu og ná þannig lyklum að bifreiðinni. Bifreiðin fannst um klukkustund síðar og var meintur þjófur handtekinn og vistaður í fangageymslu.
Á tíunda tímanum í gærkvöldi var tilkynnt um þjófnað á rafmagnshlaupahjóli á Álftanesi. Tilkynnandi sá ungan mann taka hjólið og setja í bifreið og aka síðan á brott. Lögreglan stöðvaði akstur bifreiðarinnar skömmu síðar. Ökumaðurinn sagðist í fyrstu eiga hjólið en breytti síðan framburði sínum og viðurkenndi þjófnaðinn. 16 ára unglingur var einnig í bifreiðinni og sótti forráðamaður hans hann á lögreglustöð. Hjólinu var skilað til eigandans.
Eldur kom upp í tveimur bifreiðum við Esjustofu á þriðja tímanum í nótt. Ekki er vitað um eldsupptök. Bifreiðarnar voru fluttar á brott með dráttarbifreið þegar slökkvistarfi var lokið.
Einn ökumaður var kærður fyrir of hraðan akstur í nótt en bifreið hans mældist á 130 km/klst á Reykjanesbraut í Kópavogi en þar er leyfður hámarkshraði 80 km/klst.