Litháar hafa ekki bannað alla vöruflutninga, sem fara um Litháen, til Kalíningrad því bannið nær aðeins yfir þær vörur sem eru á lista Evrópusambandsins yfir vörur sem ekki má flytja til Rússlands.
Ráðamenn í Moskvu eru mjög ósáttir við þetta og utanríkisráðuneytið segir að Rússar áskilji sér rétt til að bregðast við þessu og verja þannig hagsmuni Rússlands.
The Guardian segir að þetta hafi hringt aðvörunarbjöllum í Brussel og hafi Josep Borrell, sem fer með utanríkismál í Framkvæmdastjórninni, sagt að Litháar séu einfaldlega að framfylgja refsiaðgerðum ESB gegn Rússlandi.
Aðspurður sagðist hann alltaf hafa áhyggjur af hefnd Rússa og benti á að Kalíningrad væri ekki einangrað því ekki væri bannað að ferðast frá svæðinu til annarra hluta Rússlands. Fólk geti því ferðast á milli Kalíningrad og annarra hluta Rússlands og einnig sé hægt að flytja vörur, sem ekki eru á bannlista ESB, til Kalíningrad.
Um hálf milljón býr í Kalíningrad sem Rauði herinn náði á sitt vald undir lok síðari heimsstyrjaldarinnar en svæðið hafði tilheyrt Þýskalandi. Þar er Eystrasaltsfloti Rússa með höfuðstöðvar sínar. Íbúar í Kalíningrad hömstruðu ýmsar nauðsynjavörur um helgina eftir að yfirvöld á svæðinu sögðu að Litháar væru að undirbúa sig undir að stöðva lestarsamgöngur til svæðisins og skrúfa fyrir gasleiðslur.
Dmitry Peskov, talsmaður Vladímír Pútíns Rússlandsforseta, sagði í gær að Rússar muni bregðast við þessari „ólöglegu aðgerð“. Hann sagði þetta brjóta gegn öllu og sé ólöglegt.
Íbúar í Kalíningrad þurfa að reiða sig á vöruflutninga með járnbrautarlestum frá Rússlandi.