Segir ráðuneytið að það að rússneskir ráðamenn hafi ekki lýst formlega yfir stríði gegn Úkraínu og haldi sig við að um „sérstaka hernaðaraðgerð“ sé að ræða haldi aftur af rússneska hernum.
Meðal annars reyni rússnesk yfirvöld nú að finna leiðir til að refsa hernaðarandstæðingum og þeim sem neita að berjast í Úkraínu. Vegna þess að stríði hefur ekki verið lýst yfir og aðeins er talað um innrásina sem „sérstaka hernaðaraðgerð“ er ekki hægt að refsa þeim hermönnum sem neita að berjast í Úkraínu. Það er aðeins hægt ef stríði hefur formlega verið lýst yfir.
Hugveitan Institute for the Study of War segir einnig að það séu „grundvallarmistök“ hjá Rússum að lýsa ekki yfir stríði. Það ýti undir lítið álit rússneskra þjóðernissinna á forystu hersins og sýni vel að það er skortur á hermönnum.