fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Eyjan

Þjóðirnar tvær í landinu búa við mismunandi aðstæður segir Ragnhildur – „Alþýðan sem fær e.t.v. brauðmola“

Kristján Kristjánsson
Mánudaginn 20. júní 2022 09:00

Ragnhildur L. Guðmundsdóttir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það eru tvær þjóðir í landinu; elítan sem telur sig hátt yfir aðra hafna og svo alþýðan sem fær e.t.v. brauðmola sem falla af borðum hinna.“ Svona hefst grein eftir Ragnhildi L. Guðmundsdóttur, kennara, náms- og starfsráðgjafa og nema í þjóðfræði, í Morgunblaðinu í dag. Greinin ber fyrirsögnina „Elítan og almúginn“. Í greininni segir Ragnhildur að tvær þjóðir búi í landinu og að hún færist sjálf sífellt nær því telja hag landsins best borgið innan Evrópusambandsins.

„Þau hringja í eyrum mér orðin sem sjálfstæðismaður nokkur sagði varðandi það að lækka virðisaukann t.d. af heimilistækjum, að þá gætu hinir efnameiri skipt oftar um heimilistæki og hinir tekjulægri þá líka í gegnum bland.is,“ segir hún og víkur síðan að stjórnmálamönnum samtímans, undirgefnum verkalýðsleiðtogum og stórbokkum í atvinnulífinu sem hún segir eiga sér rætur og fyrirmynd allt aftur til landnáms.

Hún segir að stórbændur og lénsherrar hafi haldið fólki í vistarböndum því fólk var ekki frjálst og gat aðeins skipt um vinnustað einu sinni á ári en það var þá háð því að því byðist einhver vinna. „Vinnufólk þrælaði þar fyrir húsbændur og oftar en ekki við kröpp kjör, fundust örfáir inni á milli sem gerðu vel við sitt vinnufólk. Þetta má lesa í gegnum sögur og frásagnir frá liðnum tíma, í æviskrám og sagnabókum. En hefur þá ekkert breyst frá þessum tíma? Jú við erum komin inn í nútímann með tækni og öll verkfæri til þess að allir geti átt hér gott líf en þessi umrædda elíta kemur í veg fyrir það með öllum ráðum. Fær verkalýðsstéttina að borðum með smá brauðmolum og lætur að því liggja að allt fari á heljarþröm ef verkafólk tekur ekki á sig byrðarnar til þess að koma í veg fyrir „stórslys“ sem yrði ef elítan fær ekki sitt,“ segir hún.

Hún segir síðan að þessi elíta sé búin að koma ár sinni vel fyrir borð. Vinnuveitendur sitji í stjórnum lífeyrissjóðanna og geti þar „gamblað“ með þá og stýrt fjárfestingum þeirra „. . . og þá til fyrirtækja sem fara á markað, en með það fyrir augum að styrkja sín eigin völd, eru ekki að hugsa um fólkið á plani“.

Fær alþýðan bara brauðmola sem detta af borðum elítunnar? Mynd:Getty

Hún segir að þessi sama elíta hafi komið sínu fólki fyrir í öllum stofnunum ríkisvaldsins og dómstólum og sé þetta fólk sett í störfin eftir óskum ráðherra sem velji þá sem eru þeim þóknanlegir.

„Aldraðir og öryrkjar mega ekki bíða sagði formaður Vg hér um árið og enn bíður þetta fólk,“ segir hún og bætir við að þegar rætt sé um örlitlar kjarabætur til þessara hópa gjósi úrtöluraddirnar upp og segi að ekki megi gera of vel við þá því það geti leitt til þess að fólki í þessum hópum fjölgi.

„Stór hluti tekna þessara hópa fer í leigu húsnæðis á mjög óheilbrigðum markaði, lög sem ríkið setur t.d. varðandi stofnframlög miðast við sértæka hópa og aðrir sem vilja byggja að norrænni fyrirmynd óhagnaðardrifið húsnæði sitja eftir, rúmast ekki innan regluverks elítunnar sem með þessu sýnir að hún hefur engan áhuga á að bæta húsnæðismálin, vill viðhalda stöðu leigusala fremur en byggja upp betri stöðu leigutaka,“ segir hún.

Að lokum ræðir hún Evrópusambandið og segist aldrei hafa verið mjög spennt fyrir aðild að því  en sé nú að færast sífellt nær því að telja gott að Ísland gerist aðili að sambandinu. Þar sé heilbrigðara regluverk sem þyrfti að taka upp, elítan geti ekki lengur hagað sér eins og hún gerir nú því böndum yrði komið á sérhyglina og frændhyglina.

„Einnig er ég á því að taka þurfi upp aðra mynt eða fasttengja íslensku krónuna t.d. við evru svo stjórnvöld geti ekki lengur hringlað með krónuna og fellt hana eftir „behag“ fyrir stórútgerðina, sem kemst upp með að fá greitt í evrum en greiðir svo laun í ónýtri krónu. Ég held að með þessu sé ég komin með enn eitt verkefnið, þ.e. að tala fyrir því að fara í ESB,“ segir hún síðan að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt