Rúmlega 300 gestir heiðruðu Sigurð Sævar með nærveru sinni í opnuninni og var gerðum góður rómur að verkum listamannsins.
,,Það var yndislegt að fá svona marga góða gesti hingað í opnunina á fallegum sumardegi. Ég var að sýna nýleg verk sem ég unnið á síðustu tveimur árum,“ segir Sigurður Sævar.
Hann leggur í dag stund á nám í myndlist við konunglegu listaakademíuna í den Haag í Hollandi en kom heim í sumar til að láta drauminn rætast og eignast framtíðar vinnustofu og sýningarsal.
Sigurður Sævar var aðeins fjögurra ára gamall þegar hann stofnaði sitt eigið smíðaverkstæði við heimilið sitt í Vesturbænum og um sjö ára aldur fór hann að hafa áhuga á myndlist.
,,Myndlistaráhuginn byrjaði snemma og ég hef aldrei fengið leið á honum. Sá kraftur er bara að eflast með hverjum deginum,“ segir listamaðurinn.
Engir ákveðnir opnunartímar eru í sýningarsalnum heldur verða einkamóttökur þar fyrir einstaklinga og hópa eftir samkomulagi. Allir eru velkomnir sem vilja kynnast Sigurði Sævari og hans verkum.