Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Áslaugar Thelmu Einarsdóttur, segir Orkuveituna hafa meðvitað látið konur gera atlögu að mannorði Áslaugar á blaðamannafundi sem OR hélt árið 2018 í tengslum við uppsögn hennar úr starfi hjá dótturfyrirtæki OR.
Eins og DV greindi frá fyrr í dag var uppsögnin dæmd ólögmæt í Landsrétti í dag. Áslaug segir að henni hafi fyrirvaralaust verið sagt upp störfum eftir að hún kvartaði undan framkomu síns næsta yfirmanns. Segir hún að á blaðamannafundinum áðurnefnda hafi átt sér stað tímamótaaðför vinnuveitanda á hendur starfsmanni.
Sigurður spyr hvort OR ætli núna að halda blaðamannafund um dóm Landsréttar. Hann segir að rannsakendur sem fengu greitt frá OR hafi verið kallaðir til að réttlæta uppsögnina á Áslaugu:
„Blaðamannafundur?
Nú hefur Landsréttur fallist á kröfu Áslaugar Thelmu um bæði skaða- og miskabætur vegna uppsagnar í september 2018.
Til að réttlæta þá uppsögn eftir á var efnt til mikillar vinnu af hálfu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar og kallaður til fjöldi mannauðs manneskja ( flestar kenndar til föðurs með viðskeytinu dóttir.)
Allir fengu rannsakendur greitt frá Orkuveitu Reykjavíkur og allir komust að þeirri niðurstöðu að ekkert væri athugavert við uppsögnina.
Þegar skýrsla innri endurskoðunar lá fyrir blés yfirfréttahönnuður Orkuveitu samstæðunnar til blaðamannafundar þar sem ráðist var að starfsheiðri Áslaugar Thelmu.
Fréttahönnuðinum þótt best að sú atlaga yrði gerð af konum, enda hafði kallinn sem vandræðunum olli innan Orku náttúrunnar verið rekinn og kallinn sem stýrt hafði Orkuveitu Reykjavíkur meðan allt ruglið var í gangi í eineltis- og áreitismálum ákvað að fara í leyfi og fengin hafði verið kona í hans stað.
Nú er bara spurning hvort fréttahönnunardeild Orkuveitusamstæðunnar boði til blaðamannafundar kynni efni dóms Landsréttar.“