Landsréttur álítur að stöðugt ógnarástand hafi ríkt á heimili manns sem beitti eiginkonu sína og þrjú börn ofbeldi. Þetta kemur fram í dómi sem féll í morgun. Landsréttur þyngdi fangelsisdóm héraðsdóms yfir manninum úr eins árs fangelsi í eins og hálfs árs fangelsi. Leggur Landsréttur áherslu á það í niðurstöðu sinni að eðlilegt sé að meta ofbeldisbrot í nánum samböndum heildstætt án þess að sanna þurfi hvert og eitt tilvik fyrir sig. Segir Landsréttur að í því ógnarástandi sem maðurinn hafi skapað á heimili sínu hafi kona hans og börn getað átt von á ofbeldi næstum hvenær sem var.
Í ákæru var maðurinn meðal annars sakaður um að hafa misboðið ólögráða syni sínum andlega og líkamlega með því að kasta bolla með heitu tei í áttina að honum, hóta honum lífláti, rífa í föt hans, sparka í rúmdýnu, rífa handklæðaslá af vegg á baðhergi og slá með henni í stigahandrið og í höfuð móður drengsins að honum ásjáandi.
Í öðru tilviki er maðurinn sagður hafa rifið í hár sonar síns og sveiflað höfði hans til og frá ásamt því að ráðast á móður og bræður drengsins að honum ásjáandi.
Maðurinn er meðal annars sakaður um að hafa slegið eiginkonu sína með ferðatösku í höfuðið, farið síðan með ferðatöskuna inn í hjónaherbergi og haft þvaglát í hana. Hann er einnig sakaður um mörg önnur ofbeldisbrot gagnvart konunni.
Sem fyrr segir var fangelsisdómur mannsins fyrir Landsrétti þyngdur upp í eitt og hálft ár en miskabætur til handa konu hans og börnum eru óbreyttar frá dómi í héraði. Er hann dæmdur til að greiða eiginkonunni 1,2 milljónir í bætur, einu barninu 1 milljón, öðru 800 þúsund krónur og því þriðja 600 þúsund.
Dóma Landsréttar og héraðsdóms í málinu má lesa hér.