fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
Fréttir

Ungu pari vísað frá tjaldsvæði í Kjarnaskógi – „Framkoman hjá starfsfólkinu var svakalega dónaleg“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 16. júní 2022 16:02

Mynd: Facebook

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Við erum tvö, við erum yfir tvítugt, við erum ekki að djamma, þetta á ekki að vera vandamál,“ segir Úlfhildur Elín Guðmundsdóttir í samtali við DV, en henni var ásamt unnusta hennar og tveimur öðrum manneskjum vísað frá tjaldsvæðinu Hömrum í Kjarnaskógi hjá Akureyri, á þeim forsendum að þau væru ekki með börn og tjaldsvæðið væri ætlað fjölskyldufólki. Áherslan á það ákvæði reglnanna þyngist ávallt í kringum hátíðina Bíladaga, sem haldin verður á Akureyri um helgina.

Úlfhildur lýsir atvikum svo: „Við mættum hingað um kl. 13:30 í dag, fjögur saman í jeppaferð um landið og ætluðum að gista í Hömrum eina nótt og halda síðan leið okkar áfram. Þegar röðin er loks komin að okkur og ég tilbúin að borga erum við spurð hvort við værum með börn. Ég svara neitandi og nefni að við séum par og tveir aðrir í jeppaferð. Þá er okkur sagt með miklum hroka að þetta væri einungis fyrir fjölskyldufólk, þ.e.a.s. fólk með börn.“

Segist Úlfhildur hafa reynt að útskýra fyrir starsfkonu í afgreiðslunni að þau ætluðu einungis að gista eina nótt og væru ekki með neitt partýstand. En þessu varð ekki hnikað og fólkið þurfti frá að hverfa. „Okkur var meinaður aðgangur og bent á að önnur tjaldsvæði séu á Akureyri sem er vissulega rétt, og hún segir okkur að fara á tjaldsvæði Bílaklúbbs Akureyrar. Þegar ég bendi henni á að til þess að vera á því svæði þá þurfi að hafa árskort klúbbsins þá yppir hún öxlum og segist ekki geta hjálpað. Þegar við snúum okkur við til baka inn í bíl sjáum við hins vegar að eldra par fer inn í móttökuna og fær strax aðgang sem mér fannst rosalega skrýtið þar sem þau voru ekki spurð hvort þau væru með börn, rétt eins og við,“ segir Úlfhildur, sem telur þessa framkomu einkennast af fordómum og mismunum.

Úlfhildur fékk símasamband við yfirmann tjaldsvæðisins en það breytti engu, hann endurtók bara í sífellu að þetta væri fjölskyldutjaldsvæði og svona séu bara reglurnar.

„Hann segir síðan að Bíladagar standi yfir um helgina og að ekki sé hægt að hleypa ungu fólki inn á svæðið, sem er ekki í lagi. Við erum öll 21-22 ára og ekkert sem gefur þeim tilefni til þess að vísa okkur á brott.“

„Framkoman hjá starfsfólkinu var svakalega dónaleg,“ segir Úlfhildur. „Er í lagi að meina bara ákveðnum hópi af fólki aðgang inn á einhver svæði út frá því hvernig þau líta út eða aldri þeirra? Af hverju mátti frekar eldra parið fara inn en ekki við? Gætu þau ekki alveg eins verið með partístand rétt eins og ungt fólk? Framkoman og reglurnar sem settar eru yfir þessa ákveðnu helgi eru fáránlegar og mikil mismunun á sér stað gagnvart ferðafólki.“

„Það segjast allir ætla að hafa það rólegt þegar þeir koma“

„Vandamálð er að það segjast allir ætla að hafa það rólegt þegar þeir koma en svo gerist oft eitthvað allt annað,“ segir Ásgeir Hreiðarsson, yfirmaður tjaldsvæðisins Hamrar, í samtali við DV.

„Almenna reglan er sú að aldurstakmark sé 18 ár en svo höldum við stífar í áhersluna á að þetta sé fjölskyldutjaldsvæði í tengslum við Bíladaga. Ég skil vel að fólk svekki sig á þessu og þetta er örugglega ekki alltaf sanngjarnt. En þetta snýst um það að þegar margir safnast saman þá gerist eitthvað annað en það sem fólk ráðgerði þó að fólk ætli að hafa það rólegt þegar það mætir á svæðið. En það opnar sérstakt tjaldsvæði í tengslum við Bíladaga og ungt fólk getur farið þangað.“

Ásgeir segir að þung áhersla sé lögð á að fyrirbyggja vandamál og koma í veg fyrir allt sem ógnað geti því markmiði að halda tjaldsvæðinu fjölskylduvænu: „En það kemur alltaf niður á einhverjum að ósekju, ég geri mér grein fyrir því.“

Úlfhildur segir hins vegar: „Svo er gamla fólkið að kvarta yfir því að maður geri ekki neitt. En maður kemst ekki neitt!“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Hraun hefur runnið yfir Njarðvíkuræð

Hraun hefur runnið yfir Njarðvíkuræð
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Fyrstu myndir af gosinu úr þyrlu Landhelgisgæslunnar

Fyrstu myndir af gosinu úr þyrlu Landhelgisgæslunnar
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Rýmingu lokið í Bláa lóninu

Rýmingu lokið í Bláa lóninu
Fréttir
Í gær

Ólafur fengið nóg og yfirgefur Ísland: „Farið út, var sagt við mig, þið fáið enga hjálp hér“

Ólafur fengið nóg og yfirgefur Ísland: „Farið út, var sagt við mig, þið fáið enga hjálp hér“
Fréttir
Í gær

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtalækkunin þýðir fyrir 45 milljóna króna húsnæðislán

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtalækkunin þýðir fyrir 45 milljóna króna húsnæðislán