Nágrannaerjur á Seltjarnarnesi vegna kattahalds, sem eiga sér upptök í óvenjulegu framtaki hjóna sem búa við Bakkavör, hafa undið upp á sig undanfarið. Að minnsta kosti ein lögreglukæra og ein kæra til MAST hafa litið ljós vegna málanna undanfarið.
Hjónin eru meðal annars sökuð um að hafa tekið kött ófrjálsri hendi í götunni og farið með hann upp í Norðlingaholt og skilið hann þar eftir. Ól kattarins fannst hins vegar á Bakkavör og þar var einnig kragi sem settur hafði verið á hann til að fæla frá fugla, sem og merkispjald með bjöllu.
Um helgina dró aftur til tíðinda en þá lokuðu hjónin kött nágranna inni í bílskúr sínum. Sú kona heitir Marina Puchkova og ræddi hún við DV. Hún segir hjónin áður hafa lokað kött hennar inni í bílskúr sínum. Átök brutust út á milli Marinu og hjónanna þegar hún reyndi að ná myndbandi af kettinum inni í bílskúrnum, sími hennar var sleginn út úr höndum hennar. Marina sagði í samtali við DV á sunnudag:
„Þegar ég sá hann sitja í bílskúrnum þeirra, þá var kattabúr nálægt, það var enginn matur, ekkert vatn, enginn kisusandkassi. Við byrjuðum að rífast, ég sagði henni að ég hefði uppfyllt kröfur hennar um að hafa köttinn minn ekki úti frá 22. apríl til 30. maí. Þá sögðu þau að kröfur þeirra hefðu breyst og ef hann Sunny drepur fuglana þeirra, þá drepa þeir þau hann ef hann kemur í garðinn.“
Marina hefur einnig látið þess getið að hún hafi reynt að fara að kröfum hjónanna, t.d. hafi hún haldið ketti sínum inni út maímánuð, en þau komi alltaf með nýjar kröfur. Annar íbúi á Seltjarnarnesi segir að konan sem hér á í hlut hafi stolið af sér tveimur köttum. Hún stundi það að stela köttum og læsa þá inni hjá sér.
Hjónin sem sökuð eru um þetta framferði við ketti og eigendur þeirra búa við Bakkavör á Seltjarnarnesi, sem fyrr segir. DV náði sambandi við konuna sem vildi lítið ræða málið en vísar til samþykktar bæjarins um kattahald:
„Það eina sem ég hef að segja, það verður bara að lesa um kattahald á Seltjarnanesi og 5. gr. Það er það eina sem ég hef að segja, ég hef ekkert um þetta að segja.“
Greinin sem konan vísar til er eftirfarandi:
„Eigendum og umráðamönnum katta ber að taka tillit til fuglalífs á varptíma. Einnig er þeim skylt að gæta þess að kettir valdi ekki tjóni, hættu, óþægindum, óþrifum eða raski ró manna.
Tilkynna skal til skrifstofu Seltjarnarnesbæjar um brottflutning eða dauða kattar.“
Blaðamaður benti konunni á að ekkert kæmi fram í þessari grein sem heimilaði að taka ketti ófrjálsri hendi eða loka þá inni.
„Fyrirgefðu, ég óska ekki eftir að tala um þetta við þig eða nokkurn annan,“ sagði konan þá.
Blaðamaður benti konunni á að lausaganga katta væri ekki bönnuð á Seltjarnarnesi. Sagði hún þá:
„Ég vil ekki ræða þetta við þig, eigðu góðan dag.“