Lögreglan í Brasilíu hefur handtekið 21 árs gamlan mann sem sendi morðhótanir á Willian, fyrrum leikmanni Arsenal og Chelsea.
Willian er enskum knattspyrnuaðdáendum kunnur en hann gerði garðinn frægan með Chelsea áður en hann hélt til Arsenal í stuttan tíma.
The Mirror greinir nú frá því að Willian hafi leitað til lögreglunnar í heimalandinu eftir mörg viðbjóðsleg skilaboð á samskiptamiðlum.
Willian leikur nú með Corinthians í heimalandinu en í þessum skilaboðum var honum hótað lífláti með bæði hníf og skotvopni.
Maðurinn hótaði einnig að skaða tvær dætur leikmannsins og eiginkonu og hafði hann engra kosta völ en að leita til lögreglunnar.
Samkvæmt lögreglunni í Brasilíu bjóst maðurinn ekki við að Willian myndi taka þessum ásökunum alvarlega og var því furðu lostinn er handtakan átti sér stað.
Það fyllti mælinn hjá þessum 33 ára gamla fyrrum brasilíska landsliðsmanni þegar ofbeldismaðurinn hótaði því að dætur hans væru ekki öruggar í skólanum og væru í lífshættu.