Christian Panucci, fyrrum landsliðsmaður Ítalíu, er ekki pent hrifinn af ástandinu í landsliðinu í dag.
Ítalía er ekki á leið á HM í Katar í lok árs sem kom verulega á óvart en liðið vann Evrópumeistaramótið í fyrra.
Margir ungir leikmenn hafa fengið tækifærið með Ítölum í síðustu leikjum, eitthvað sem Panucci er ekki alltof hrifinn af.
Hann telur að margir leikmenn í hópnum eigi ekki skilið að vera í landsliðinu og þurfi að gera meira til að vinna sér inn sæti.
,,Ég tel að það sé of auðvelt fyrir leikmenn að komast í landsliðið í dag. Að standa þarna og hlusta á þjóðsöngin eru forréttindi, þú þarft að vinna þér inn fyrir þessu,“ sagði Panucci.
Panucci er 49 ára gamall en hann lék á sínum tíma 57 landsleiki fyrir Ítala og skoraði fjögur mörk.
Ítalía hefur gert ágætis hluti í sínum leikjum í Þjóðadeildinni eftir jafntefli við Þýskaland og sigur á Ungverjalandi.