Christian Eriksen getur samið við betra lið en Manchester United í sumar að sögn fyrrum enska landsliðsmannsins, Gabriel Agbonlahor.
Eriksen er að verða samningslaus hjá Brentford og eru mörg félög talin hafa áhuga á að fá hann í sínar raðir.
Tottenham er fyrrum félag Eriksen og hefur hann verið orðaður við endurkomu en Brentford vill halda Dananum.
Man Utd er annað lið sem er nefnt til sögunnar en það væri ekki fyrsti kostur Agbonlahor ef hann fengi einhverju ráðið.
,,Ég tel að hann myndi bæta hvaða lið sem er. Ímyndið ykkur að spila með honum, hlaupin sem þú gætir tekið, hann myndi alltaf finna þig,“ sagði Agbonlahor.
,,Ég er viss um að hann sé með svo marga möguleika og það er talað um Manchester United en ég er ekki sannfærður. Ég held að hann geti gert betur en United.“
Man Utd er að ganga í gegnum breytingartímabil og hefur Erik ten Hag tekið við stjórnartaumunum á Old Trafford.