Guðmundur Felix Grétarsson var gestur í hinum sívinsæla morgunþætti Good Morning Britain í gær, föstudag.
Þar var fjallað um „kraftaverkaaðgerðina“ sem hann gekkst undir en eins og flestir Íslendingar vita varð Guðmundur Felix fyrsti einstaklingurinn í heiminum til að undirgangast tvöfalda handleggjaágræðslu við axlir í byrjun síðasta árs í Frakklandi.
Með honum í beinni útsendingu var eiginkona hans, Sylwia Gretarsson Nowakowska.
Innslagið hefst á mynd af því þegar hann faðmar Diljá Natalíu dóttur sína í fyrsta sinn síðan hún var þriggja mánaða gömul en Guðmundur Felix missti handleggina í hræðilegu vinnuslysi árið 1998. Eldri dóttur hans, Rebekka Rut, var þá fjögurra ára og ólust þær upp við að eiga pabba með enga handleggi. Fyrr en nú. Eftir smá upprifjun í máli og myndum hefst viðtalið.
Gríðarlegar framfarir hjá Guðmundi Felix hafa komið læknum, og ekki síst honum sjálfum, afar skemmtilega á óvart enda getur hann þegar gert ýmislegt sem ekki var reiknað með að hann myndi geta nærri því strax.
Hann segir til að mynda frá því í viðtalinu að hann sé kominn með tilfinningu í alla fingur en þó ekki að fullu. „Ég var að sópa í kring um sundlaugina um daginn og áttaði mig ekki á því að ég væri kominn með blöðrur á hendurnar fyrr en ég sá blóðið á sópnum,“ sagði hann.
Spurður hvað hann langar mest að geta gert af því sem hann getur enn ekki gert svaraði hann: „Mig langa að hjóla á reiðhjóli.“
Undir lok viðtalsins spyr síðan annar þáttarstjórnandinn: „Má ég taka í höndina á þér?“ Og eftir að hún fær leyfið nánast hrópar hún upp yfir sig: „Vá, þetta er mögnuð upplifun fyrir mig.“
Hér má sjá innslagið í heild sinni.