Alvarlegt slys átti sér stað í Reynisfjöru í dag er ferðamann tók út með öldu um klukkan 16:40 í dag. Þyrla Landhelgisgæslu kom á vettvang um klukkan 17:50 og tók skamma stund að ná manninum úr sjónum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu.
Maðurinn var á ferð með eiginkonu sinni og voru þau hluti af stærri hóp í skipulagðri ferð á svæðinu. Björgunarsveitir á Suðurlandi og í Vestmannaeyjum voru kallaðar til vegna slyssins auk daglegra viðbragðshópa lögreglu og sjúkraflutningamanna.
Áfallahjálparteymi Rauða krossins mun aðstoða við að hlúa að fólki úr hópnum og er rannsókn á slysinu og tildrögum þess hafin, líkt og skylt er í tilvikum sem þessum.
Ekki er vitað um ástand mannsins að svo stöddu en lögregla segir ekki frekari upplýsinga að vænta frá þeim að sinni.