Landsréttur staðfesti í dag niðurstöðu héraðsdóms um að Marek Moszcynski hafi sumarið 2020 orðið þremur að bana með því að kveikja í húsnæði á Bræðraborgarstíg og samhliða því gert tilraun til að bana tíu til viðbótar sem voru inn í húsinu á verknaðarstundu.
Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að Marek hafi, er brotinn voru framin, ekki verið sakhæfur og því yrði honum ekki refsað fyrir brotið, en þó gert að sæta öryggisvistun á viðeigandi stofnun.
Við meðferð málsins hjá Landsrétti kom til álita hvort að Marek skyldi áfram sæta slíkri vistun. Var þá meðal annars litið til þess hvort að geðrænt ástand hans gæti hafa stafað af sýklalyfjum sem hann hafði tekið inn, en Marek hélt því fram að sýklalyf hafi valdið ástandi hans en ekki undirliggjandi geðsjúkdómur.
Voru því kallaðir til dómkvaddir matsmenn til að meta hvort að sýklalyf gætu hafa valdið geðrofinu sem Marek var í, og þá hvort rétt væri að hann yrði áfram vistaður á öryggisdeild.
Matsmenn ráku að að til væru greinar um möguleg tengsl sýklalyfjagjafar og örlyndis [maníu] en slíkar greinar byggi á fáum tilfellum og tengist þau flest tilteknu sýklalyfi, sem Marek hafi verið á. Hins vegar sé ekki ljóst að bein orsakatengsl væru milli sýklalyfja og tilurðar örlyndis. Líklega ýti sýklalyfin undir einkenni maínu frekar en að valda henni. Matsmenn töldu ólíklegt að veikindi Mareks árið 2020 hafi orsakast af sýklalyfjum heldur væri hann með undirliggjandi geðhvörf og því eigi hann á hættu að fara aftur upp í örlyndi.
Í dómi Landsréttar kemur fram að Marek hafi ekki verið samvinnuþýður um meðferð við sjúkdómi sínum, en slíkt væri forsenda þess að hann gæti losnað úr öryggisgæslu. Landsréttur staðfesti því héraðsdóm um að Marek verði áfram gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun.
Dómur Landsréttar í heild sinni