Nýlega staðfesti matvælaráðuneyti ákvörðun Matvælastofnunar (MAST) frá því í október í fyrra um að svipta sauðfjárbónda einn öllu fé sínu. Bóndinn hafði áður kært þessa ákvörðun MAST til ráðuneytisins sem hefur núna staðfest ákvörðunina.
Þetta kemur fram í frétt á vef MAST.
Segir þar að stofnunin hafi allt frá árinu 2019 gert ítrekaðar athugasemdir við aðbúnað sauðfjár á bæ bóndans. Var fundið að slysavörnum, brynningu, fóðrun, holdafari fjársins, smitgát, gólfi í fjárhúsum, ástandi girðinga og umhverfis við mannvirki. „Að lokum var bóndanum gert að gera úrbætur á húsum sínum fyrir 1.júlí 2021 eða framvísa ella samningi við nágranna um annan húsakost fyrir féð. Það gerði hann ekki og var hann því sviptur vörslum fjárins um haustið,“ segir í fréttinni.
Bóndinn taldi að MAST hefði brotið reglur um meðalhóf og beitt of íþyngjandi aðgerðum. „Ævistarf hans hefði farið í súginn og hann ekki getað nýtt kærurétt sinn áður en vörslusvipting fór fram. Stofnunin hefði einnig getað bætt sjálf úr aðbúnaði skepnanna á kostnað bóndans í stað þess að svipta hann vörslum kindanna,“ segir í frétt MAST.
Ráðuneytið féllst ekki á rök bóndans. Hlutverk MAST sé að tryggja velferð dýranna og ekki hefði verið hægt að beita mildari aðgerðum. Ákvörðunin stendur og bóndinn fær kindurnar sínar ekki aftur.