Alexandra Ýr van Erven hefur verið kjörin forseti Landssamtaka íslenskra stúdenta. Hún hefur áður gegnt ýmsum hlutverkum innan Stúdentaráðs og tekið virkan þátt í hagsmunabaráttu stúdenta. Hún segist spennt fyrir þessu verkefni og að hagsmunir stúdenta séu henni hjartans mál.
Vekefni samtakanna eru fjölmörg að sögn Alexöndru en hún nefnir sérstaklega húsnæðismál, endurskoðun lánasjóðskerrfisins, aðgengi fatlaðra að námi og móttöku flóttafólks sem vill stunda nám hérlendis.
Fréttatilkynning í heild sinni er eftirfarandi:
Alexandra Ýr van Erven er nýkjörin forseti Landssamtaka íslenskra stúdenta (LÍS).
Alexandra hefur komið víða við í hagsmunabaráttu stúdenta en áður hefur hún gegnt forystuhlutverkum innan Stúdentaráðs og Röskvu. Hún var sviðsráðsforseti á hugvísindasviði og sat í stjórn Stúdentaráðs og stjórn Hugvísindasviðs.
Hún hefur einnig setið sem fulltrúi nemenda í kennslumálanefnd háskólaráðs og var áður formaður ungmennaráðs UN Women. Síðastliðin sumur hefur hún starfað við rannsóknir á íslenskukennslu á vegum Tungumálatöfra á Ísafirði.
„Ég er virkilega spennt fyrir því að takast á við þetta nýja verkefni. Hagsmunir stúdenta og gæði menntakerfisins eru og verða áfram mér hjartans mál. Tækifærin eru ótalmörg en áskoranirnar sömuleiðis. Ég hlakka til að láta gott af mér leiða,“ sagði Alexandra.
Verkefni samtakanna, sem Alexandra hlakkar til að takast á við eru fjölmörg. “Þar má til dæmis nefna húsnæðismálin en í núverandi húsnæðisástandi þarf sérstaklega að stuðla að frekari uppbyggingu stúdentaíbúða í grennd við háskólana.” Alexandra vonast eftir góðu samstarfi við nýja meirihluta í sveitarstjórnum til þess að stuðla að húsnæðisöryggi námsmanna.
“Framundan sé einnig endurskoðun lánasjóðskerfisins og áframhaldandi barátta um jafnrétti til náms. Þar má sérstaklega nefna aðgengi fatlaðra að háskólamenntun og mótttöku flóttafólks sem hyggst stunda nám í gegnum Student Refugees.” Alexandra segir nýtt ráðuneyti háskólamála spennandi en enn eigi eftir að skýrast hvernig nýtt skipulag muni þjóna betur menntakerfinu og stúdentum.
Auk Alexöndru voru kjörin í stjórn Anton Björn Helgason varaforseti, Rannveig Klara Guðmundsdóttir ritari, Erna Benediktsdóttir jafnréttisfulltrúi, Sigríður Helga Olofsson alþjóðafulltrúi og Sigtýr Ægir Kára markaðsstjóri.
Hlutverk samtakanna er að standa vörð um hagsmuni stúdenta hérlendis sem og hagsmuni íslenskra stúdenta á alþjóðavettvangi og um leið skapa samstarfsvettvang fyrir íslensk stúdentafélög.
LÍS eru regnhlífarsamtök og standa að þeim átta aðildarfélög sem eru í forsvari fyrir stúdenta við Háskólann á Akureyri, Háskólann á Bifröst, Landbúnaðarháskóla Íslands, Listaháskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Hólum, Háskóla Íslands og fyrir íslenska stúdenta sem stunda nám erlendis. LÍS eru því í forsvari fyrir rúmlega 20 þúsund íslenskra stúdenta