Þetta segir Kolbrún Bergþórsdóttir í leiðara Fréttablaðsins í dag en hann ber fyrirsögnina „Góðir leiðtogar“.
Kolbrún segir að engin ástæða sé til að fyllast af depurð vegna nýja borgarstjórnarmeirihlutans. Hann hafi alla burði til að standa sig vel. Það eina sem kemst nálægt því að vekja ugg í brjósti varðandi meirihlutasamstarfið segir hún vera yfirlýsingar um stórauknar Pírataáherslur við stjórn borgarinnar. Hún hvetur þó þá sem eru borgaralega þenkjandi til að halda ró sinni vegna þessa.
„Skipting borgarstjórastólsins milli Dags B. Eggertssonar og Einars Þorsteinssonar er skynsamleg ákvörðun. Dagur er reynslubolti og mun örugglega gefa eftirmanni sínum góð og gagnleg ráð. Hann hefur margsýnt í störfum sínum sem borgarstjóri að hann á auðvelt með að vinna með fólki og er þar að auki laus við þrætugirni og stundar ekki upphrópunarstjórnmál. Hann er skínandi góður stjórnmálamaður og þegar harðir pólitískir andstæðingar hans reyna að gera lítið úr honum gerast þeir sekir um slæman dómgreindarbrest um leið og þeir opinbera pólitískt ofstæki,” segir Kolbrún og segir að það sama eigi við um Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, „sem er afburðastjórnmálamaður en fær stundum yfir sig svívirðingaflaum, aðallega frá bitrum og fúllyndum karlmönnum. Það er reyndar offramboð af þeim í þessu landi en það er önnur saga sem ekki verður sögð hér,“ segir Kolbrún.
Hún segir Einar vera óskrifað blað í íslenskum stjórnmálum. „Hann er yfirvegaður og líkt og Dagur og Katrín virðist hann lítt gefinn fyrir upphrópunarstjórnmál. Það er gott að vita af því. Í byrjun stjórnmálaferils síns fær Einar mikinn meðbyr og borgarbúar virðast almennt bera traust til hans. Þar skiptir örugglega miklu hógvær og hlýlegur málflutningur. En þar sem stjórnmálin eru nú einu sinni enginn sunnudagaskóli má Einar búast við að fá sinn skammt af skömmum og röfli á stjórnmálaferlinum. Forvitnilegt verður að fylgjast með því hvernig hann mun þroskast sem stjórnmálamaður,” segir hún síðan.