U21 árs karlalandslið Íslands tók á móti Hvíta-Rússlandi í undankeppni EM á Víkingsvellinum í kvöld. Ísland þurfti að vinna leikinn til að eiga möguleika á að komast upp úr riðlinum og í umspil fyrir EM á næsta ári.
Hinn bráðefnilegi Kristian Nökki Hlynsson kom Íslendingum yfir á 15. mínútu og lagði svo upp mark fyrir Kristall Mána Ingason undir lok fyrri hálfleiks og heimaliðið með 2-0 forystu þegar liðin gengu til búningsklefa.
Kirill Zinovich minnkaði muninn fyrir Hvítrússa í upphafi síðari hálfleiks og spilamennska íslenska liðsins dalaði í kjölfarið en Viktor Örlygur Andrason, sem komið hafði inná sem varmaður á 68. mínútu, innsiglaði 3-1 sigur Íslands átta mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma eftir sendingu frá Kristian.
Ísland er nú með 15 stig, tveimur stigum á eftir Grikklandi sem situr í öðru sæti, umspilssætinu, með 17 stig þegar ein umferð er eftir.
Grikkland mætir toppliði Portúgal í lokaumferðinni á meðan Ísland fær Kýpur í heimsókn. Ísland þarf að vinna sinn leik og treysta á að Portúgal geri sér greiða til að tryggja sér annað sætið í riðlinum og þar með umspilssæti á EM 2023.