Fjöldi leikja fór fram í Þjóðadeild UEFA í dag og kvöld.
Í riðli 2 í A-deild tók Portúgal á móti Sviss og vann 4-0 sigur. Cristiano Ronaldo gerði tvö mörk fyrir Portúgal. Hin mörkin skoruðu þeir William Carvalho og Joao Cancelo.
Í hinum leiknum í riðlinum tók Tékkland á móti Spáni. Jakub Pesek kom Tékkum yfir snemma leiks en Gavi jafnaði rétt fyrir hálfleik. Á 66. mínútu kom Jan Kuchta Tékkum yfir á nýjan leik en Inigo Martinez gerði jöfnunarmark Spánverja í lok leiks.
Portúgalir og Tékkar eru með fjögur stig á toppi riðilsins, Spánverjar eru í þriðja sæti með tvö stig og Sviss án stiga á botninum.
Í B-deild, deild okkar Íslendinga, var leikið í riðli 4. Serbía vann Slóveníu 4-1 í öðrum leiknum og Noregur vann Svíþjóð 1-2 í hinum. Erling Braut Haaland gerði bæði mörk Norðmanna.
Noregur er á toppi riðilsins með sex stig, Serbar og Svíar koma þar á eftir með þrjú og Slóvenar eru á botninum án stiga.
Í C-deild var leikið í riðlum 2 og 4. Í riðli 2 gerðu Kýpur og Norður-Írland markalaust jafntefli í öðrum leiknum en Grikkir unnu Kósóvó 0-1 í hinum. Grikkir eru á toppi riðilsins með sex stig og Kósóvó er í öðru sæti með þrjú stig. Norður-Írar og Kýpverjar eru svo með eitt stig hvort.
Í riðli 4 vann Georgía 2-5 sigur á Búlgaríu í öðrum leiknum en Norður-Makedónía vann 0-2 sigur á Gíbraltar í hinum. Georgía er á toppi riðilsins með sex stig, Norður-Makedónar eru í öðru sæti með 4 stig, Búlgarar í því þriðja með eitt stig og Gíbraltar á botninum án stiga.
Loks fór fram einn leikur í riðli tvö í D-deild. Þar vann Malta 0-2 sigur á San Marínó. Eistar eru á toppi þessa riðils sem telur þrjú lið. Maltverjar eru í öðru sæti með þrjú stig og San Marínó rekur lestina.