Karlmaður á þrítugsaldri hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald fram til 1. júlí, en hann er grunaður um að hafa ráðið nágranna sínum bana í Barðavogi í gærkvöldi.
Lögregla fór fram á gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna í þágu rannsóknar hennar á manndrápi.
Í tilkynningu frá lögreglu segir að hinn látni hafi verið meðvitundarlaus er lögreglu bar að garði upp úr 19:30 í gærkvöldi og andaði hann ekki.
„Strax voru hafnar endurlífgunartilraunir á manninum en þær báru ekki árangur. Sakborningur var á staðnum og var hann þegar handtekinn og fluttur á lögreglustöð. Sakborningur og hinn látni voru nágrannar en ekki er talið að þeir tengist að öðru leyti.
Rannsókn málsins er á viðkvæmu stigi og getur lögregla ekki tjáð sig frekar um málsatvik að svo stöddu.“
Fram hefur komið í dag að hinn látni var fæddur árið 1975, en talið er að hann hafi látist af áverkum í kjölfar barsmíða frá nágranna sínum. Sá er fæddur 2001 og hefur nágrönnum í hverfinu stafað ógn af honum. Mun lögregla hafa verið kölluð að húsinu í Barðavogi í minnst tvígang sólarhringinn fyrir andlátið vegna ofbeldisfullrar hegðunar meints geranda. Kannaði lögregla, að sögn Vísis, málið án þess að fjarlægja manninn af heimili sínu.