William Saliba hefur staðfest að hann muni leika með Arsenal á næstu leiktíð.
Miðvörðurinn ungi gekk til liðs við Arsenal frá Saint Etienne fyrir um 30 milljónir punda fyrir þremur árum síðan en var lánaður beint aftur til franska félagsins. Hann kom svo aftur til Arsenal en fékk ekki tækifærið svo hann var lánaður til Nice seinni hluta þarsíðustu leiktíðar. Á leiktíðinni sem var að ljúka lék Saliba með Marseille og stóð sig frábærlega.
„Ég tilheyri Arsenal. Ég á tvö ár eftir af samningi og fer aftur þangað. Ég hef ekki spilað leik og langar að sína mitt rétta andlit og fá tækifæri til að spila fyrir þessa frábæru stuðningsmenn og þetta frábæra félag,“ sagði Saliba.
Hann er þakklátur Marseille fyrir tímann þar. „Ég mun aldrei gleyma Marseille. Ég eyddi frábærum hluta ferilsins þar og félagið kom mér á kortið.“