Ungverjar tóku á móti Englendingum í Búdapest í fyrsta leik liðanna í Þjóðadeildinni.
Dominik Szoboszlai skoraði eina mark leiksins úr vítaspyrnu á 65. mínútu í óvæntum sigri Ungverja. Það var lítið um að vera í fyrri hálfleik og Englendingar hugmyndasnauðir og daufir framan af.
Ungverjar voru minna með boltann en sköpuðu fleiri og betri færi og verðskulduðu sigurinn. Jarod Bowen, leikmaður West Ham United, var í fyrsta sinn í byrjunarliði Englands en tókst ekki að setja mark sitt á leikinn.
Í öðrum leikjum dagsins í Þjóðadeildinni gerðu Finnland og Bosnía og Hersegóvína 1-1 jafntefli. Teemu Pukki skoraði mark Finna úr vítaspyrnu í uppbótartíma fyrri hálfleiks en Smail Prevljak bjargaði stigi fyrir gestina í uppbótartíma síðari hálfleiks.
Armenía vann þá Írland með einu marki gegn engu og Lúxemborg sótti þrjú stig til Litháen í 2-0 sigri.