„Ég held að við getum tekið helling með okkur þegar við horfum á þennan leik og það eru miklar framfarir eftir marga tapleiki,“ sagði Arnór Sigurðsson, leikmaður íslenska landsliðsins í fótbolta en hann skoraði síðara mark Íslands í 2-2 jafntefli gegn Ísrael í fyrsta leiknum í Þjóðadeildinni á fimmtudaginn.
„Við áttum fína frammistöðu núna í Ísrael en það er ekki nóg og við verðum að fara að tengja góðar frammistöður og fara að snúa þessu við.“
„Við höfum verið gagnrýndir fyrir það sem hefur verið í gangi og það hefur kannski átt rétt á sér svo það er undir okkur komið að svara þessu inni á vellinum,“ bætti Arnór við. Arnór segist sjá framfarirnar í íslenska liðinu og að hópurinn sé samheldnari en hann var áður.
Ísland mætir Albaníu á Laugardalsvelli á mánudagskvöld.