Umræðan er ekki ný af nálinni en kviknaði enn á ný þegar leik milli 4. flokks kvenna hjá Vestra og höfuðborgarliðs, sem átti að fara fram á sunnudaginn, var frestað rétt fyrir helgi. Pálína Jóhannsdóttir, móðir stúlku í liði Vestra, skrifaði harðort skeyti á Facebook þar sem hún sagði dóttur sína og aðra liðsmenn Vestra hafa upplifað sár vonbrigði með enn eina frestunina.„Þetta nístir og þetta stingur og við getum ekki svarað börnunum okkar,“ skrifaði Pálína. Í samtali við DV segir hún hafa upplifað slíkar frestanir alltof oft verandi móðir margra barna sem hafa farið í gegnum yngri flokka starfi. Segist hún upplifa lítilsvirðingu forsvarsmanna aðra liða fyrir tíma og og vinnu annarra.
„Þessi síðasta frestun er tilkomin þegar þjálfari okkar liðs hefur samband að fyrra bragði og athugar hvort að höfuðborgarliðið ætli ekki örugglega að mæta,“ segir Pálína. Í kjölfarið hafi svo verið tilkynnt um að höfuðborgarliðið næði ekki að safna í liði og myndi því ekki að mæta í leikinn.
„Þetta eru örfáir heimaleikir sem börnin okkar fá á hverju sumri og foreldrar og sjálfboðaliðar hafa skipulagt tíma sinn í kringum þessa leiki. Við upplifum fullkomið virðingaleysi fyrir tíma okkar og vinnu að leikjum sé frestað með svona skömmum fyrirvara og börnin uupplifa sár vonbrigði. Ég hef upplifað þetta alltof oft með mín börn sem hafa farið í gegnum yngri flokkana og maður er algjörlega kominn með nóg af þessu,“ segir Pálína.
Eldræða hennar á Facebook, sem lesa má hér, hefur vakið mikil viðbrögð á samfélagsmiðlinum og kallað fram sterk viðbrögð.
Tinna Hrund Hlynsdóttir þekkir málið frá tveimur hliðum. Annars vegar er hún formaður Vestra og hins vegar á hún sæti í varastjórn KSÍ.
„Ég er algjörlega sammála Pálínu og þekki þessa tilfinningu vel. Þetta hefur verið viðvarandi vandamál í mörg ár í öllu íþróttum hér fyrir vestan og er ofboðslega bagalegt,“ segir Tinna Hrund.
Hún segist hafa fullan skilning á að allskonar aðstæður geti komið upp í skipulagningu íþróttastarfs fyrir börn- og ungmenni og stundum séu forföll nauðsynlegt. Það sé þó aðeins ef að allar aðrar leiðir hafi verið reyndar. „Eins og önnur íþróttafélag þá lendum við stundum í þeim aðstæðum að það sé erfitt að ná í lið í einhverja leiki. En þá er allt lagt í sölurnar til þess að mæta í leikinn, til dæmis með að fá lánsmenn úr yngri flokkum,“ segir Tinna Hrund.
Hún segir marga fyrir vestan klóra sér í hausnum yfir því að forföll séu boðuð með svo skömmum fyrirvara og það eftir að þjálfari heimamanna hafi haft frumkvæði af því að athuga með mætingu. „Þetta er ofboðslega sorglegt. Okkar tilfinning er því miður sú að leiðin vestur sé lengri en leiðin suður. Við sækjum flesta okkar leiki og mót annað og slík keppnisferðalög eru mikið ævintýri fyrir okkar iðkendur. Ég á bágt með að skilja að forsvarsmenn liða á höfuðborgarsvæðinu geti ekki búið til ævintýri úr keppnisferðum liða hingað vestur.“
Tinna Hrund segir að heimaleikir fyrir krakkana í Vestra séu nánast eins og þátttaka á EM. „Þau fá mjög fáa slíka leiki og það er mikil upplifun fyrir krakkana að fá ömmur og afa, vini og ættingja til þess að mæta á slíka leiki. Þetta er bara mjög sorglegt.“
Vandamálið er ekki nýtt af nálinni en Tinna Hrund á sæti í varastjórn KSÍ og á dögunum var málið rætt´á stjórnarfundi og er í vinnslu. Töfralausn er þó ekki í sjónmáli.
„Ef þú lausn væri til þá værum við að nota hana. Fyrsta skrefið að mínu mati er að einhverskonar hugarfarsbreyting eigi sér stað varðandi þessi keppnisferðalög á Vestfirði og Austurland. Að aðstandendur liða á höfuðborgarsvæðinu átti sig á vinnunni og skipulaginu sem hefur verið lagt í varðandi þessa leiki og beri virðingu fyrir því,“ segir Tinna.
Sjálf hafi hún íhugað aðra lausn sem sé þó neyðarúrræði. „Ég er á þeirri skoðun að mögulega þurfi að beita háum sektum sem bíti verulega ef að fresta á leikjum með skömmum fyrirvara. Það væri reynandi að sjá hvort að það myndi stemma stigu við þessu vandamáli,“ segir Tinna Hrund.
Hún segist bjartsýn á að KSÍ muni grípa til einhverra aðgerða. „Það var einhugur innan stjórnar KSÍ um að það þyrfti að bregðast við þessu vandamáli. Það vill enginn að þetta sé svona.“