Íslenska U21 landsliðið í fótbolta tók á móti Liechtenstein í undankeppni EM á Víkingsvellinum í dag. Leiknum lauk með yfirburðasigri íslenska liðsins.
Kristian Nökkvi Hlynsson kom Íslandi á bragðið strax á 3. mínútu eftir sendingu frá Brynjólfi Willumssyni, fyrirliða. Atli Barkarson bætti við öðru markinu tveimur mínútum síðar og við tók gífurleg markahrina íslenska liðsins.
Kristall Máni Ingason bætti við þriðja markinu á 10. mínútu og það rigndi hreinlega inn mörkum fyrir íslenska liðið en staðan var 8-0 þegar dómarinn flautaði til loka fyrri hálfleiks. Ísak Snær Þorvaldsson skoraði tvö mörk í fyrri hálfleik sem og Brynjólfur og Kristian Nökkvi.
Síðari hálfleikurinn var mun rólegri og aðeins eitt mark skorað en það gerði Atli Barkarson beint úr aukaspyrnu á 82. mínútu.
Ísland fer upp fyrir Hvíta-Rússland á markamun en bæði lið eru með 12 stig í D-riðli. Ísland situr því í 3. sæti, fimm stigum á eftir Grikklandi í öðru sætinu þegar bæði lið eiga tvo leiki eftir.
Ísland mætir Hvíta-Rússlandi miðvikudaginn 8. júní.