Landsliðskonan Guðrún Arnardóttir var á skotskónum með Rosengård er liðið styrkti stöðu sína á toppnum með 4-3 útsigri gegn Linköping í sænsku efstu deild kvenna í kvöld.
Um var að ræða toppslag en liðin sátu í fyrsta og öðru sæti fyrir leik. Loreta Kullashi skoraði bæði mörk Rosengård í fyrri hálfleik en Nellie Karlsson jafnaði metin fyrir Linköping inn á milli.
Guðrún, sem er varnarmaður og ekki þekkt fyrir markaskorun, kom Rosengård í 3-1 forystu á 70. mínútu áður en Therese Simonsson minnkaði muninn fyrir Linköping þremur mínútum síðar.
Olivia Schough bætti við fjórða marki gestanna á 80. mínútu en Amalie Vangsgaard minnkaði aftur muninn fyrir heimakonur undir lok leiks en það dugði ekki til og sterkur 4-3 sigur Rosengård staðreynd.
Guðrún og félagar eru með 30 stig á toppi sænsku deildarinnar þegar 12 umferðum er lokið en liðið hefur enn ekki tapað leik og er með fimm stiga forskot á Linköping sem situr í öðru sæti með 25 stig.