fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Fréttir

Hæstiréttur tekur Paradísarheimtar-málið fyrir – Jón Ársæll telur Landsréttardóminn „bersýnilega rangan“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Föstudaginn 3. júní 2022 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hæstiréttur hefur fallist á að taka fyrir mál sjónvarpsmannsins Jóns Ársæls Þórðarsonar, en hann var í Landsrétti í apríl dæmdur til að greiða konu 800 þúsund krónur í miskabætur vegna viðtals sem birtist við hana í sjónvarpsþáttaröðinni Paradísarheimt. 

Alls voru þrjár þáttaraðir gerðar af Paradísarheimt. Fyrsta þáttaröðin fjallaði um fólk með geðrænan vanda, önnur þáttaröðin um fanga og síðu þriðja um fólk sem var sagt synda á móti straumnum.

Umrædd kona var viðmælandi í annarri þáttaröðinni. Hún hafði fyrst veitt samþykki fyrir viðtali og birtingu þess, en síðan afturkallað samþykki sitt með tölvupósti til Jóns Ársæls þar sem hún sagði: „Er hægt að taka mig út úr þessu? Hvenær átti þetta annars að koma?“

Héraðsdómur og Landsréttur ósammála

Jón Ársæll gekkst við því er málið var tekið fyrir í Héraðsdóm að honum hafi borist pósturinn, en hann hafi þó ekki skilið hann sem svo að í honum fælist ósk um að vera tekin úr þættinum.

Héraðsdómur hafði sýknað Jón Ársæl af kröfum konunnar með vísan til þess að ekkert hefði fram komið um að konan hafi ekki verið hæf eða bær til að samþykkja að veita viðtalið. Dómari taldi einnig að konan hafi ekki reynt að koma í veg fyrri birtingu viðtalanna, að áðurnefndum tölvupóst undanskilnum en dómari taldi póstinn ekki fela í sér afturköllun á samþykki með skýrum og afdráttarlausum hætti.

Landsréttur sneri þessari niðurstöðu við og dæmdi Jón Ársæl til að greiða 800 þúsund krónur í miskabætur með vísan til þess að við birtingu þáttarins hafi viðkvæmar persónuupplýsingar um konuna gerðar opinberar. Jóni Ársæli hafi mátt vera ljóst er hann las áðurnefndan tölvupóst að konan væri ekki samþykk birtingu og yrði það metið honum til stórfellds gáleysis að hafa ekki í kjölfarið af móttöku tölvupóstsins stöðvað birtingu þess efnis sem konuna varðaði.  Þegar til standi að birta upplýsingar af því tagi sem þarna var gert þurfi að liggja fyrir skýrt og ótvírætt samþykki og hafi konan átt fullan rétt til að afturkalla slíkt samþykki, sem hún hafi gert.

Landsréttur taldi að í ljósi efnistaka þáttarins væri ekki hægt að telja að þátturinn hafi aðeins verið unninn í þágu fréttamennsku eða bókmenntalegar eða listrænnar starfsemi, og því ættu undanþágur til fjölmiðla, sem getið er um í lögum um persónuvernd, ekki við í málinu.

Málið hafi mikla þýðingu fyrir fjölmiðla- og fréttafrelsi á Íslandi

Jón Ársæll ákvað að áfrýja niðurstöðunni til Hæstaréttar og hefur Hæstiréttur fallist á að taka málið fyrir og veitt áfrýjunarleyfi. Jón Ársæll heldur því fram að niðurstaða málsins hafi mikla þýðingu fyrir fjölmiðla- og fréttafrelsi á Íslandi. Telur Jón Ársæll að ekki hafi komið skýrt fram í niðurstöðu Landsréttar hvers vegna Paradísarheimt væri ekki talinn hafa verið unnin í þágu fréttamennsku og eins hafi ekki farið fram mat á því í málinu hvort eigi að vega þyngra – rétturinn til friðhelgi einkalífs eða tjáningarfrelsi fjölmiðla og fjölmiðlamanna.

Jón Ársæll telur einnig að dómur Landsréttar sé „bersýnilega rangur“ um túlkun ákvæðis þágildandi laga um persónuvernd um að víkja megi frá ákvæðum þeirra laga í þágu fjölmiðlunar „að því marki sem það er nauðsynlegt til að samræma sjónarmið um rétt til einkalífs annars vegar og tjáningarfrelsis hins vegar.“

Hæstiréttur mat það svo að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi um þau álitamál sem Jón Ársæll lagði fram og féllst því á umsókn hans um áfrýjunarleyfi.

Gyða fékk einnig bætur

Þetta er ekki fyrsta málið þar sem Jón Ársæll hefur verið gagnrýndur fyrir þættina. Arið 2019 var honum gert að greiða Gyðu Dröfn Grétarsdóttur 1 milljón í miskabætur vegna viðtals sem hann tók við hana á meðan hún sat í afplánun inni á fangelsinu á Sogni. Gyða hafði veitt samþykki fyrir viðtalinu en farið fram á að sjá og fara yfir viðtalið fyrir birtingu og veita í kjölfar þess endanlegt samþykki. Það var ekki virt og var viðtalið birt þrátt fyrir að hún væri því mótfallin og þrátt fyrir að Fangelsismálastofnun hefði ítrekað sett sig í samband við RÚV og skorað á þau að falla frá birtingu þess. Eins kom fram við rekstur málsins í Héraðsdómi að Jón Ársæll hafi ekki aflað leyfis fangelsismálastofnunar, sem er skylt að gera, áður en hann tók viðtölin.

Sjá einnig: Gyða grátbað Jón Ársæl:„Enginn sáttavilji var fyrir hendi“

Í öðru máli kvartaði maður að nafni Viðar Marel Magnússon yfir þáttunum. Hann var ekki viðmælandi þáttar en honum brá fyrir í þætti sem fjallaði um frænku hans, unga skáldkonu sem syndir á móti straumnum. Viðar Marel var heima hjá frænku sinni er hluti þáttarins var tekinn upp. Hann var þar nafngreindur, tekið fram að faðir hans væri tónlistarmaðurinn Megas, en Viðar hafði ekki veitt samþykki fyrir að nafn hans yrði notað í þættinum eða að upptökur af honum yrðu notaðar. Viðar sagðist hafa leitað til Jóns Ársæls og óskað eftir því að upptakan yrði ekki notuð eða í það minnsta að andlit hans yrði gert óþekkjanlegt. Við því hafi Jón Ársæll ekki orðið.

Sjá einnig: Viðar sár og illur út í Jón Ársæl:„Þegar ég heyrði þetta fór ég á toppinn í reiðinni“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Innflytjandinn sem lét íslenskar konur heyra það: „Væri reiðin ykkar önnur ef Íslendingur hefði skrifað þetta?“

Innflytjandinn sem lét íslenskar konur heyra það: „Væri reiðin ykkar önnur ef Íslendingur hefði skrifað þetta?“
Fréttir
Í gær

Sigurður G. segir að eins og fyrr sé hnefinn á lofti hjá Eflingu

Sigurður G. segir að eins og fyrr sé hnefinn á lofti hjá Eflingu
Fréttir
Í gær

Strætósvindlarar verða krafðir um fargjaldaálag

Strætósvindlarar verða krafðir um fargjaldaálag
Fréttir
Í gær

Nikótínvörusali bregst við auglýsingabanni – Túnfiskdósir og „ape shop“

Nikótínvörusali bregst við auglýsingabanni – Túnfiskdósir og „ape shop“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Faðir sló og sparkaði í dóttur sína – Hótaði að berja hana svo illa að hún gæti ekki andað fyrir blóði

Faðir sló og sparkaði í dóttur sína – Hótaði að berja hana svo illa að hún gæti ekki andað fyrir blóði
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sævar Þór beinir athygli að því að sumir hafa það ekki gott um jólin

Sævar Þór beinir athygli að því að sumir hafa það ekki gott um jólin
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sex ára drengur setti fingur í hurðarfals myndmenntastofu og unglingur sparkaði í hurðina

Sex ára drengur setti fingur í hurðarfals myndmenntastofu og unglingur sparkaði í hurðina
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Brotist inn í bíl Páls Steingrímssonar en lögregla og tryggingafélag draga lappirnar – „Ég vil bara vara fólk við þessu“

Brotist inn í bíl Páls Steingrímssonar en lögregla og tryggingafélag draga lappirnar – „Ég vil bara vara fólk við þessu“