Valdhafar á Vesturlöndum eru ekki samstíga í hversu langt á að ganga í þessu og margir reyna að hafa áhrif á skoðanir þeirra.
Kaja Kallas, forsætisráðherra Eistlands, er meðal þeirra sem skilja ekki af hverju sumir valdhafar eiga í samskiptum við Pútín og segist ekki skilja af hverju Macron og Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, hringi sífellt í Pútín. „Ég sé ekki að þessi samtöl skili neinu. Pútín hefur ekki breytt stefnu sinni vegna þeirra. Í mínum augum er engin ástæða til að ræða við hann,“ sagði hún nýlega í samtali við Der Spiegel og bætti við: „Hvernig á Pútín að fatta að hann er einangraður þegar fjöldi fólks hringir í hann?“
Það er ljóst að það er mikill munur á skoðunum valdhafa á Vesturlöndum hvernig sé hægt að binda enda á stríðið í Úkraínu sem fyrst. Sumir telja að Vesturlönd verði að aðstoða Pútín við að koma sér út úr stríðinu án þess að hann verði fyrir alltof miklum álitshnekki. Síðan eru hinir sem vilja að Rússar verði gjörsigraðir.
Líta má á Macron sem einn þeirra sem vilja fara mjúku leiðina að Pútín en Kallas er í hópi harðlínufólks. „Ég sé aðeins eina lausn og það er hernaðarsigur Úkraínu. Það verður að hrekja Rússa aftur til Rússlands. Þess vegna verðum við og aðrir að halda áfram að senda vopn,“ sagði hún.
Macron hefur áhyggjur af viðbrögðum Pútíns ef honum finnst hann vera króaður af úti í horni, að hann geti gripið til örþrifaráða til að bjarga orðspori sínu og hugsanlega lífi sínu.