„Mér leið svo illa“ – Sterkur og lífsglaður einstaklingur í dag
„Sú meðferð sem ég hlaut hjá borgarstjórn Reykjavíkur þegar ég var borgarstjóri og í fimm ár á eftir, hún hér um bil leiddi mig til dauða,“ sagði Ólafur F. Magnússon, læknir og fyrrverandi borgarstjóri, í viðtali við Útvarp Sögu í gær. Ólafur sagði að hann hefði verið við dauðans dyr vegna eineltis af hálfu annarra borgarfulltrúa.
Smelltu hér til að hlusta á viðtalið
Ólafur, sem gegndi embætti borgarstjóra frá 24. janúar til 21. ágúst 2008, var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur í Síðdegisútvarpinu í gær. Þar ræddu þau meðal annars um bólusetningar en eftir um 40 mínútur af þættinum barst talið að tíma Ólafs í borgarstjórn Reykjavíkur.
Um það leyti sem REI-málið svokallaða kom upp árið 2007 var Ólafur í veikindaleyfi, en á þeim tíma var hann oddviti Frjálslynda flokksins í borgarstjórn. Hann snéri aftur í borgarstjórn í desember það ár en var látinn skila læknisvottorði. Ólafur hefur áður tjáð sig um einelti í sinn garð. Það gerði hann árið 2014 í aðsendri grein í Morgunblaðinu, en umfjöllun um hana má nálgast í slóðinni hér að framan.
„Einelti er banvænt og enn eru margir (gerendur, innsk. blm.) sýnilegir þarna niðri í borgarstjórn Reykjavíkur. Fólk sem hefur framið mannorðsmorð á mér og á eflaust eftir að fara illa með fleiri, þó kannski einelti gegn mér sé það frægasta á þessari öld,“ sagði Ólafur sem bætti við að ráðist hafi verið á hann vegna veikinda sem hann glímdi við. „Ekki vegna þess að ég var illa gefinn maður, illa menntaður, vanhæfur til starfs, bara af því að ég hafði verið þunglyndur þá fór þarna fólk með Björk Vilhelmsdóttur, Dag B. Eggertsson, Ilmi Kristjánsdóttur í fararbroddi og með Hönnu Birnu á eftir. Það gekk það nærri mér í fimm ár, ekki eitt ár. Þetta segir að það skortir í okkar samfélag samheldni, virðingu og kærleik,“ sagði Ólafur.
Ég var algjörlega við dauðans dyr.
Arnþrúður spurði Ólaf því næst hversu langt hann hafi verið leiddur.
„Ég var algjörlega við dauðans dyr. Ég sagði á hverjum einasta degi að ég vildi ekki lifa lengur. Mér leið svo illa,“ sagði Ólafur sem bætti við að það sem fyllti mælinn var þegar borgarráð, „samhljóða undir forystu Dags B. Eggertssonar“ lét lögsækja hann og kallað hann þjóf. Það hafi verið eins fjarri sanngirni og veruleika og hugsast gat.
„Þeir notuðu aðstöðuna til að siga borgarlögmanni á mig blásaklausan. Ég get sagt og horft í augun á þér að það hefur sjaldan verið til heiðarlegri maður í pólitík,“ sagði Ólafur sem bætti við, í ljósi þess að spjallið hófst á tali um bólusetningar, að hann væri nú bólusettur fyrir neikvæðri umræðu. Hún hefði ekki lengur áhrif á hann. Bætti hann því að hann væri lífsglaður og sterkur einstaklingur í dag.