Pólland og Wales áttust við í fyrsta leik liðanna í A4-riðlinum í Þjóðadeildinni í kvöld. Það voru Pólverjar sem höfðu betur eftir að hafa lent undir.
Johny Williams kom Walesverjum í forystu þegar sjö mínútur voru liðnar af síðari hálfleik en Jakub Kaminski jafnaði fyrir Pólland á 72. mínútu. Það var svo Karol Swiderski sem tryggði Pólverjum 2-1 sigur þegar fimm mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma.
Pólland er því með þrjú stig. Wales er án stiga líkt og Holland og Belgía sem eiga eftir að spila sinn fyrsta leik.
Sigurvegari riðilsins fer áfram í úrslitakeppnina en liðið sem endar í neðsta sæti fellur niður í B-riðil.