Manchester City og Liverpool mætast í leiknum um Samfélagsskjöldinn þann 30. júlí næstkomandi. Viðureignin verður háð á King Power vellinum í Leicester.
Leikurinn um Samfélagsskjöldinn átti upphaflega að fara fram á Wembley vellinum í Lundúnum en hefur verið færður þar sem úrslitaleikurinn í EM kvenna verður haldinn þar daginn eftir.
Leicester, sem urðu enskir bikarmeistarar í fyrra, unnu Man City 1-0 í Samfélagsskildinum í ágúst 2021. Leikurinn í ár verður haldinn fyrr þar sem nýtt tímabil í enska boltanum skarast á við HM í Katar sem fram fer í nóvember og desember mánuðum.
Enska úrvalsdeildin hefst 6. ágúst en fer í hlé helgina 12. og 13. nóvember og hefst svo aftur 26. desember, átta dögum eftir úrslitaleikinn á HM.