Þórhallur Dan Jóhannsson fyrrum knattspyrnumaður fer ófögrum orðum um Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfara í hlaðvarpsþættinum Mín skoðun sem Valtýr Björn Valtýsson heldur úti.
Valtýr Björn vitnaði í frétt Fréttablaðsins í vikunni þar sem sagt var frá því að nokkrir leikmenn landsliðsins hefðu lesið um það á netinu að þeir væru í landsliðshópnum.
,,Þú ert að grínast, er það ekki? Þetta er bara svona?,“ sagði Þórhallur en Fótbolti.net vitnaði fyrst til um.
Meira:
Samskipti sögð ábótavant – Lásu um það á netinu að Arnar vildi nota þá
Þórhallur segir að slík vinnubrögð gefi ekki góð fyrirheit. „Hve lengi ætlar KSÍ að gefa þessu séns á meðan þetta er ekki að virka? Þegar að maður heyrir að leikmenn í A-landsliðinu fái að frétta það á fréttamiðlum að þeir séu valdir og að þjálfarar séu í sáralitlum samskiptum við leikmenn sína, það veit ekki á gott. Því miður. Ef það er staðan þá verður ekki mikið að frétta í þessu landsliði á komandi mánuðum,“ bætti Þórhallur
Þórhallur segist svo hafa heyrt ýmislegt um framkomu í garð eldri leikmanna sem flestir hafa ekki mátt eða ekki viljað mæta í síðustu verkefni landsliðsins.
„Núna veit ég það ekki, ég er bara að velta því fyrir mér. Ég er búinn að heyra ýmislegt varðandi framkomu núverandi þjálfara við eldri leikmenn sem voru í hópnum… það getur vel verið að leikmennirnir vilji ekki spila fyrir hann.“