Hallur Magnússon, fyrrum varaborgarfulltrúi og fyrrum yfirmaður þróunar- og markaðssvið hjá Íbúðalánasjóði, hefur verið ákærður af Héraðssaksóknara fyrir skattsvik ásamt viðskiptafélögum sínum. Hin meintu brot tengjast rekstri Íslandsarmi verktakafyrirtækisins Betonorte en norska móðurfélagið, Betonorte Norge AS, óskaði eftir því að Betonorte Island ehf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta þann 12. desember 2019 eftir rúmlega tveggja ára rekstur.
Í samtali við DV segir Hallur að ákæran hafi verið sem þruma úr heiðskíru lofti og að hann skilji ekki hvað Héraðssaksóknara gangi til með framgöngu sinni.
„Þetta mál er með hreinum ólíkindum. Ég er ákærður þarna fyrir skattalagabrot þrátt fyrir að vera hvorki eigandi, stjórnarmaður né framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Ég er titlaður sem markaðsstjóri fyrirtækisins og því hefur það ekki verið í mínum verkahring að standa skil á þessum gjöldum,“ segir Hallur. Annar íslenskur meðstjórnandi er einnig ákærður í málinu sem og Sigbjørn Larsen, framvkæmdastjóri Betonorte Island ehf. og forstjóri Betonorte Norge AS.
Betonorte Island starfaði sem undirverktaki fyrir fjölmörg öflug íslensk verktakafyrirtæki. Félagið hafði sterkt tengsl við Portúgal en þaðan koma flestir starfsmenn fyrirtækisins. Að sögn Halls hefur fyrirtækið kappkostað við að gera vel við þessa starfsmenn, greitt laun yfir taxta, þeir fái frítt húsnæði hérlendis auk þess sem allir starfsmenn fengu reglulega fríar flugferðir til Portúgal til að heimsækja ættingja og vini.
Rekstur fyrirtækisins gekk vel en árið 2019 seig á ógæfuhliðina þegar greiðslur upp á samtals 70 milljónir úr tveimur verkum skiluðu sér ekki. „Það gerði það að verkum að fresta þurfti greiðslu opinberra gjalda og var samið um greiðslufrest við skattayfirvöld,“ segir Hallur.
Fyrirtækið hafi þó verið algjörlega rekstrarhæft en vegna rekstrarerfiðleika móðurfélagsins í Noregi ákváðu eigendur að óska eftir gjaldþrotaskiptum í íslenska félaginu um miðjan desember 2019, nokkrum dögum áður en kom að uppgjöri áðurnefndra gjalda við hið opinbera.
Hallur segir að ákvörðunin hafi komið sér verulega á óvart enda. Félagið hafi borgað öll laun í desember og auk þess átt útistandandi háar fjárhæðir sem dugðu fyrir greiðslu hinna opinberra gjalda. Til marks um rekstrarhæfi fyrirtækisins hafi hann ásamt viðskiptafélaga sínum farið þegar í stað í að bjarga útistandandi verkefnum fyrirtækisins sem og atvinnu starfsmanna. Niðurstaðan varð sú að fyrirtæki í þeirra eigu, Serra ehf, tók við rekstrinum og tók yfir helstu skuldbindingar hins gjaldþrota félagsins. Stór hluti starfsmanna fyrirtækisins fékk vinnu í hinu nýja fyrirtæki sem nú hefur starfað farsællega í rúm tvö ár og gegnir Hallur stöðu framkvæmdastjóra félagsins.
Eins og áður segir kom ákæran um meint skattsvik Halli gjörsamlega í opna skjöldu. „Ég hef aldrei verið boðaður í skýrslutöku hjá Héraðssaksóknara til þess að svara spurningum varðandi reksturinn,“ segir Hallur sem telur að um misskilning sé að ræða sem tengist því að hann var ásamt viðskiptafélaga sínum með prókúru á reikningum fyrirtækisins.
„Sú prókúra var takmörkuð við ákveðna upphæð og var gerð til þess að við þyrftum ekki að leita til Noregs að fá samþykki fyrir smávægilegum útgjöldum,“ segir Hallur.
Hann segist ekki ímyndað sér annað en að málinu verði vísað frá. „Það getur bara ekki verið að ég sem millistjórnandi verði gerður ábyrgur fyrir vanefndum þessara opinberu gjalda. Það er er ábyrgð eigenda, stjórnar eða framkvæmdastjóra fyrirtækisins.“