Það leikur enginn vafi á að stríðið í Úkraínu hefur reynst Rússum, og Pútín, dýrt. Það átti að vera skammvinnt og Rússar virðast hafa reiknað með að Úkraínumenn tækju þeim fagnandi sem frelsurum. En raunin er allt önnur og þeir hafa mætt harðri mótstöðu.
Mannfall rússneska hersins er mjög mikið og nú er svo komið að hluti hersins hefur snúið baki við Pútín. Breskar leyniþjónustustofnanir segja að fregnir hafi borist af uppreisn innan hersins og margir hermenn hafa neitað að fara til Úkraínu að berjast, þar á meðal liðsmenn Rosgvardia sem er einkaher Pútíns.
115 hermenn reknir úr einkaher Pútíns – Neituðu að berjast í Úkraínu
Rússneska elítan er sögð reið yfir stríðinu og þá aðallega hinum alvarlegu efnahagslegu afleiðingum þess en þær eru afleiðing refsiaðgerða sem Vesturlönd beita Rússa. Er elítan sögð svo reið að í afkimum Kremlar sé verið að ræða hvernig megi koma Pútín frá völdum.
Jevgenija segir að stríðið geti orðið Pútín að aldurtila en hún er þekktur gagnrýnandi Pútíns. Með því að ráðast inn í Úkraínu sendi Pútín Rússland í frjálst fall og þetta mun hafa alvarlegar afleiðingar fyrir Pútín segir hún.
„Ég tel að Pútín hafi undirritað eiginn dauðadóm,“ sagði hún í samtali við The Guardian.
Hún lætur Vesturlönd einnig heyra það: „Pútín mun falla og þeim mun fyrr, þeim mun hraðar getum við bundið enda á þetta tvöfalda siðferði sem ræður ríkjum. Á sama tíma og ríki styðja Úkraínumenn með að senda þeim vopn og mannúðaraðstoð og beita efnahagsaðgerðum gegn rússnesku efnahagslífi þá láta þau Pútín fá milljarða fyrir olíu og gas en það gerir honum kleift að halda þessu stríði áfram. Þetta verður að stoppa, því í hreinskilni sagt er þetta óskiljanlegt.“
Eiginmaður hennar, Vladimir, er þekktur andstæðingur Pútíns og tvisvar á síðustu þremur árum hefur verið reynt að ráða hann af dögum með eitri.
Hann var handtekinn 11. apríl og ákærður fyrir að dreifa röngum upplýsingum um hina „sérstöku hernaðaraðgerð“ (eins og Rússar kalla stríðið í Úkraínu).