Þegar gluggað er í dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í meiðyrðamáli Ingós Veðurguðs gegn Sindra Þór Sigríðarsyni virðist lykilatriði í niðurstöðunni að Sindri hafi ekki verið að saka Ingó um refsiverða háttsemi þegar hann sagði tónlistarmanninn í fimm ummælum, sem stefnt var út af, „ríða börnum.“
Er dómarinn þar sammála túlkun Sindra sjálfs sem hefur margoft lýst því yfir að með þessu óheflaða orðalagi hafi hann verið að gagnrýna það framferði fullorðinni manna að hafa mök við stúlkur á aldrinum 15-17 ára.
Dómarinn telur ennfremur að það margt hafi komið fram í umræðunni um meint athæfi Ingós að Sindri geti talist hafa verið í góðri trú er hann lét ummælin falla.
Dómafordæmi sýna að í meiðyrðamálum er lykilatriði hvort sá sem stefnt er hefur sakað stefnanda um refsivert athæfi eða ekki. Þegar kært er vegna ummæla sem fela ekki í sér ásökun um refsivert athæfi þurfa ummælin að teljast ekki sett fram í góðri trú, beinast gegn aðilum sem eru ekki opinberar persónur og vera mjög rætin, til að sakfellt sé fyrir meiðyrði.
Dómarinn kemst að þeirri niðurstöðu að ummælin hafi verið sett fram í góðri trú og verið réttlætanleg. Ennfremur hafi þau verið látin falla í skoðanaskiptum um brýnt samfélagslegt málefni. Orðrétt segir:
„Eftir stendur þá hvort stefndi hafi leitt nægilegar líkur að því að hann hafi verið í góðri trú um réttmæti ummæla sinna er hann lét þau falla. Þau vitni sem stefndi hefur leitt fyrir dóminn hafa ekki getað borið um að stefnandi hafi átt samræði við einstaklinga undir 15 ára aldri og stefndi hefur ekki lagt fram gögn fyrir dóminn sem með beinum hætti sýna fram á sannleiksgildi ummæla hans. Á hinn bóginn liggur fyrir að eftir að stefndi spurðist fyrir í opinni færslu á Twitter-síðu sinni um hvaða vitneskju fólk hefði um að ungar stelpur þyrftu að passa sig á tilteknum þjóðþekktum tónlistarmanni í kjölfar umræðu um afbókun stefnanda á Þjóðhátíð barst honum fjöldi frásagna frá nafngreindum einstaklingum þar sem lýst var opinberlega hvernig stefnandi hefði leitað eftir nánari kynnum við stúlkur á grunnskólaaldri, en frásagnirnar eru raktar í kafla II hér að framan. Kom þar meðal annars fram að hætt hefði verið við að bóka stefnanda á skemmtanir í félagsmiðstöðvum á vegum Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur þar sem hann hefði verið að bjóðast til að skutla nemendum heim en alþekkt er að slíkar miðstöðvar eru einkum sóttar af börnum á grunnskólaaldri. Þá var þar einnig að finna frásagnir undir nafni um að stefnandi hefði annaðhvort átt eða leitað eftir kynferðislegum samskiptum við stúlkur á aldrinum 14 til 15 ára. Frásagnir af sama toga var einnig að finna í frétt DV frá 3. júlí 2021 sem fjallað er um í kafla II hér að framan, þótt ekki væru þær undir nafni.
Með vísan til þessara frásagna, sem allar voru birtar opinberlega og undir nafni, um að stefnandi hefði ítrekað leitað eftir nánari kynnum við stúlkur á aldrinum 14 til 15 ára verður að telja að stefndi hafi leitt nægilegar líkur að því að ummælin sem kröfur stefnanda í liðum 1 til 5 lúta að hafi verið réttlætanleg og að hann hafi verið í góðri trú um að þau væru sönn. Þá verður að jafnframt að hafa í huga að ummælin voru látin falla í skoðanaskiptum um brýnt samfélagslegt málefni, sem lýtur að því hvaða ábyrgð þjóðþekktir og frægir einstaklingar skuli bera á háttsemi eins og að nýta áhrif sín og samfélagsstöðu til að eiga kynferðislegt samneyti við unga og óharðnaða einstaklinga.“
Það var niðurstaða dómarans Kjartans Bjarna Björgvinssonar að Sindri Þór Sigríðarson skyldi sýknaður af öllum kröfum stefnanda, Ingólfs Þórarinssonar. Málskostnaður féll hins vegar niður. Ingó naut gjafsóknar og greiðist málskostnaður hans úr ríkissjóði.
Samkvæmt heimildum DV íhuga Ingó nú hvort hann áfrýjar málinu til Landsréttar. Lögmaður hans, Auður Björg Jónsdóttir, segist mæla með því að áfrýja. Hún segir jafnframt að niðurstaðan hafi komið Ingó á óvart.