Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Real Madrid segir það hafa verið auðveldara að undirbúa lið sitt fyrir leikinn gegn Liverpool í úrslitum Meistaradeildar Evrópu heldur en gegn andstæðingum liðsins fyrr í keppninni. Real Madrid bar sigur úr býtum í leiknum og varð því Evrópumeistari félagsliða í fjórtánda skiptið í sögu félagsins.
Í viðtali eftir leik greindi Ancelotti frá því að skýr einkenni Liverpool undir stjórn Þjóðverjans Jurgen Klopp gerði liðið að ógnvekjandi andstæðingi en hefðu á sama tíma gefið honum skýra leið að því að ná árangri gegn þeim.
Real Madrid lagði lið á borð við Paris Saint-Germain, Chelsea og Manchester City á leið sinni í úrslitaleikinn. ,,Þegar að maður horfði til baka var sagt að Paris Saint-Germain hefði verið óheppið, það sama var sagt um Chelsea og Manchester City. Þetta var í raun eini leikurinn þar sem fólk taldi okkur á sama stigi og andstæðingurinn.“
,,Það hjálpaði okkur að auðveldara var að lesa í leik Liverpool en leik annarra liða. Þeir eru með mjög skýr einkenni á sínum leik og við gátum undirbúið okkur með tilliti til þess. Við vissum hvernig við áttum að nálgast leikinn, gáfum þeim ekki pláss til þess að koma með hlaup inn fyrir varnarlínu okkar.“