Fjarlægja þurfti karlmann af tónleikum Írafárs í Eldborgarsal Hörpu sem haldnir voru síðastliðinn laugardag í tilefni 20 ára afmælis plötunnar Allt sem ég sé. Maðurinn var staðinn að verki við að stunda sjálfsfróun á tónleikunum en töluverður hópur fólks sá til athæfisins.
„Þessi maður var fyrir aftan okkur vinkonurnar og okkar kvöld endaði með lögregluskýrslu. Hann sniffaði af okkur og reif í hárið á einni okkar. Ég er ennþá reið yfir þessu öllu,“ segir kona sem varð vitni að þessu ósiðlega athæfi mannsins, í færslu sem hún birti á samfélagsmiðlum.
Í samtali við DV staðfestir konan að maðurinn hafi verið að stunda sjálfsfróun á tónleikunum í vitna viðurvist. „Við urðum margar vitni að þessu þarna á þessum stað,“ segir hún.
Konan segir þá að hún hafi látið starfsfólkið á tónleikunum vita um leið en hún hrósar því sérstaklega fyrir snör viðbrögð. „Starfsfólk Hörpu fær hrós fyrir rosalega vönduð vinnubrögð,“ segir hún.
„Þau hlustuðu á okkur, trúðu okkur strax og innan 10-15 sekúndna var hann bara fjarlægður. Mjög vönduð vinnubrögð, um leið og ég lét vita var bara strax spurt hvar maðurinn væri og hann var fjarlægður úr salnum.“
Uppfært kl. 11:30
Í svari frá lögreglu við fyrirspurn DV er staðfest að umrætt atvik hafi átt sér stað á tónleikunum. Lögreglan segir að um sé að ræða þroskaskertan einstakling sem áttar sig ekki á alvarleika gjörða sinna.
Uppfært kl 12:50
Önnur kona sem var vitni að athæfinu setti sig í samband við DV og vildi hrósa starfsfólki Hörpu líkt og hin konan. Hún segir að viðbrögðin hafi verið algjörlega til fyrirmyndar, bæði fljótleg og góð.