Brynjar Björn Gunnarsson er enn í leit að fyrsta sigrinum sem þjálfari sænska b-deildarliðsins Örgryte.
Lærisveinar hans tóku á móti Dalkurd á heimavelli í dag og leiddu 2-0 í hálfleik en gestirnir skoruðu þrjú mörk í síðari hálfleik og voru nálægt því að vinna leikinn áður en Alexander Ahl Holmstrom bjargaði stigi fyrir Örgryte með marki á lokamínútunum.
Örgryte hefur nú tapað einum og gert tvö jafntefli í fyrstu þremur leikjunum undir stjórn Brynjars sem tók við stjórnvölunum um miðjan maí. Liðið situr á botni sænsku b-deildarinnar með 4 stig eftir 10 leiki.
Axel Óskar Andrésson lék allan leikinn fyrir Örebro er liðið tapaði 2-0 fyrir Brommpojkarna í sömu deild. Örebro er í 8. sæti með 16 stig.