Ralf Rangnick verður ekki starfandi hjá Manchester United á næstu leiktíð. Félagið staðfesti þetta á heimasíðu sinni í dag.
Rangnick tók við sem knattspyrnustjóri austurríska landsliðsins í lok apríl og mun því ekki geta sinnt ráðgjafarhlutverkinu sem honum var gert að sinna þegar Erik ten Hag tæki við sem knattspyrnustjóri félagsins.
„Við viljum þakka Ralf Rangnick fyrir hans störf sem bráðabirgðastjóri síðastliðna sex mánuði. Sú ákvörðun var tekin í sameiningu að Ralf muni eingöngu einbeita sér að störfum sínum sem knattspyrnustjóri austurríska landsliðsins og gegnir þar af leiðandi ekki starfi ráðgjafar á Old Trafford,“ stóð í yfirlýsingu.
„Við viljum óska Ralf góðs gengis á næsta skrefi ferilsins.“
Rangnick tók við sem bráðabirgðastjóri hjá United í desember eftir að Ole Gunnar Solksjaer var látinn taka poka sinn. Liðið vann aðeins 11 af 29 leikjum í öllum keppnum undir stjórn Þjóðverjans og endaði í 6. sæti í ensku úrvalsdeildinni.