Óttar Magnús Karlsson skoraði fjórða leikinn í röð er Oakland Roots nældi sér í stig gegn Sacramento Republic í næstefstu deild bandaríska fótboltans í gær.
Óttar er markahæstur í USLC deildinni með átta mörk en hann er á láni frá Venezia á Ítalíu. Mark hans í gær kom af vítapunktinum á 81. mínútu. Oakland Roots hefur verið í basli á leiktíðinni en liðið situr í næstsíðasta sæti í Vesturdeildinni með 13 stig í 13 leikjum.
.@ottar7 converts the PK to level the match ⚖️#OAKvSAC | @oaklandrootssc pic.twitter.com/ONr3rQlP1O
— USL Championship (@USLChampionship) May 29, 2022
Arnór Ingvi Traustason var í byrjunarliði New England Revolution er liðið gerði 1-1 jafntefli við Philadelphia í MLS-deildinni í gær. Arnór byrjaði leikinn á vinstri vængnum en fór af velli á 63. mínútu þegar staðan var markalaus.
New England Revolution er í 11. sæti Austurdeildarinnar með 16 stig eftir 13 leiki, 10 stigum á eftir toppliði New York City.
Þorleifur Úlfarsson byrjaði í framlínunni hjá Houston Dynamo er liðið lá 3-0 gegn Real Salt Lake á útivelli. Þorleifur fór af velli þegar rúmar tuttugu mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Houston er í 7. sæti Vesturdeildarinnar með 18 stig eftir 14 leiki.