Hér er á ferðinni unaðslega ljúffeng uppskrift af pestósnúðum með hvítlauksrjómaostakremi sem enginn mun standast. Þessi uppskrift kemur úr smiðju Maríu Gomez matgæðings, lífsstíls- og matarbloggara með meiru. María heldur úti síðunni Paz.is og er þekkt fyrir sínar ljúffengu uppskriftir sem bæði gleðja auga og munn enda mikill fagurkeri. Þessa verðið þið að prófa.
Pestósnúðar með hvítlauksrjómaostakremi
Snúðadeig
240 greða 2,5 dl ylvolg nýmjólk
60 g bráðið smjör
2 msk. hunang
2 egg
11 g þurrger eða eitt umslag
560 g hveiti
1 tsk. fínt borðsalt
Fylling
1,5-2 krukkur Fillipo Berio Chargrilled pepper pesto
Rifinn mozzarella (má sleppa)
Hvítlauksrjómaostur
1 askja eða 200 g Philadelphia Original rjómaostur
2-3 hvítlauksrif (2 ef þið viljið ekki mikið hvítlauksbragð, 3 ef þið viljið að hann rífi smá í)
Tæplega ½ tsk. fínt borðsalt (ekki nota gróft)
Þurrkuð steinselja
AÐFERÐ
Snúðadeig
Blandið saman volgri mjólk, geri og hunangi og látið standa í eins og 5 mínútur þar til myndast þykk froða ofan á. Setjið næst hveiti og salt saman í hrærivélarskál og blandið létt saman með króknum. Brjótið egg í skál og bræðið smjörið. Kveikjið svo á hrærivélinni við lágan hraða með krókinn á og bætið gerblöndunni við hveitið hægt og rólega, svo næst eggjunum og að lokum smjörinu. Það verður eins og mjög feitt til að byrja með en haldið áfram að hnoða og aukið svo aðeins hraðann eftir því sem smjörið fer meira inn í deigið
Hnoðið í eins og 3-5 mínútur eða þar til deigið er orðið silkislétt og hefur rúllað sig kringum krókinn. Leggið stykki yfir skálina og látið hefast á volgum stað í 30 mínútur. Gerið rjómaostinn til á meðan með því að hræra mörðum hvítlauksrifum út í hann ásamt salti og steinselju og hræra vel saman.
Samsetning
Þegar deigið hefur hefast fletjið það þá út í ferning sem er eins og 1 sentimeter að þykkt. Smyrjið pestó á ferninginn og rúllið svo deigunu upp eins og þegar maður gerir kanilsnúða (ef þið viljið mikla fyllingu notið þá eins og 2 krukkur en 1,5 ef þið viljið hafa bara passlegt).
Ef þið notið rifinn mozzarella dreifið honum þá yfir pestóið í þunni lagi. Skerið svo í 12 stykki snúða og raðið í smurt eldfast mót með smá bili á milli snúðana eða eins og 1 cm á milli. Setjið stykki yfir mótið og leyfið snúðunum að hefast aftur í 15 mínútur. Bakið svo við 180 °C hita á blæstri í 20-25 mínútur. Takið svo snúðana út og leyfið þeim að kólna í eins og 5-10 mínútur og setjið hvítlauksrjómaostakremið strax yfir og berið fram heita. Þeir munum bráðna í munni.